132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

úrvinnslugjald.

714. mál
[15:08]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá umhverfisnefnd um frumvarp til laga um breytingar á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Við þekkjum það að lög um úrvinnslugjald koma nokkuð oft til kasta þingsins og munu gera það. Ég held að þetta frumvarp sé til bóta og ég held að við höfum verið að þróa þessa löggjöf til betri vegar á undanförnum missirum.

Í frumvarpinu er lagt til að það verði hlutverk Úrvinnslusjóðs en ekki sveitarfélaga að ná tölulegum markmiðum um hlutfall pappa-, pappírs- og plastumbúðaúrgangs sem skal fara í endurnýtingu og endurvinnslu.

Þá eru einnig lagðar til breytingar vegna margnota flutnings- og safnumbúða. Einnig er lagt til að ábyrgð á greiðslu úrvinnslugjalds færist frá innflytjendum og framleiðendum til kaupanda. Auk þess er lagt til að skattstjóra sé heimilt að gefa út svokallað úrvinnslugjaldsskírteini en því svipar til vörugjaldsskírteinis og er ætlað að liðka fyrir innheimtu og álagningu gjaldsins. Þá eru gerðar lagfæringar á lögunum sem lúta að tilvísunum í ný tollalög.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem eru fyrst og fremst lagfæringar frekar en efnislegar breytingar. Rétt er að taka fram að breytingartillögurnar voru að vísu prentaðar upp því að breytingartillaga kom sem ekki var gert ráð fyrir á vorþinginu en kemur hér inn á sumarþingið. Það er í 5. lið, þ.e. breytingartillaga við 9. gr. b-liðar að í stað 1. júní árið 2006 komi 1. ágúst 2006 og skýrir það sig sjálft af hverju um þessa breytingu á gildistöku er að ræða.

Nefndin samþykkti nefndarálitið með framangreindum breytingum.

Undir þetta skrifa auk mín hv. þingmenn Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Mörður Árnason, Kjartan Ólafsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.