132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

landshlutaverkefni í skógrækt.

555. mál
[15:10]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá landbúnaðarnefnd um frumvarp til laga um landshlutaverkefni í skógrækt.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga gesti og einnig hafa umsagnir borist nefndinni sem getið er um í þingskjali.

Með frumvarpinu er verið að endurskoða lög um landshlutabundin skógræktarverkefni, nr. 56/1999, lög um Héraðsskóga, nr. 32/1991, og lög um Suðurlandsskóga, nr. 93/1997, enda áskilið í bráðabirgðaákvæði I í núgildandi lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni að endurskoðun fari fram að fjórum árum liðnum og er sá tími þegar liðinn.

Aðalástæða þess að þrenn lög gilda nú um verkefnin er fyrst og fremst sú að lögin um Héraðsskóga taka einungis til skógræktar á afmörkuðu landsvæði á Fljótsdalshéraði, enda var um tilraunaverkefni að ræða. Því þurfti að setja ný lög þegar ákveðið var að hefja landshlutabundna skógrækt á Suðurlandi, en við samningu laga um Suðurlandsskóga var mjög horft til laga um Héraðsskóga. Þegar ákveðið var að setja á fót skógræktarverkefni í öðrum landshlutum voru, í stað þess að sett væru sérlög fyrir hvert landsvæði, samþykkt lög um landshlutabundin skógræktarverkefni, þar sem heimild er fyrir ráðherra að stofna til skógræktarverkefna á einstaka landsvæðum en að öðru leyti eru lögin nær samhljóða lögum um Suðurlandsskóga. Þrátt fyrir að þrenn lög hafi gilt um landshlutabundin skógræktarverkefni hafa verkefnin verið mjög í sama anda enda lögin hver öðrum lík. Með frumvarpinu er ætlunin að sameina fyrrgreind þrenn lög þannig að ein lög gildi um landshlutabundin skógræktarverkefni.

Nefndin hefur tekið tillit til margra gagnlegra athugasemda frá umsagnaraðilum og leggur til ýmsar breytingar á frumvarpinu.

Rætt var í nefndinni hvort verkefnin teldust ekki lúta ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og einnig ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Í 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, kemur fram að skógræktaráætlanir skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er ekki áskilnaður um að skógræktaráætlanir fari í mat á umhverfisáhrifum heldur þurfa einstakar framkvæmdir sem uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt lögunum að fara í mat á umhverfisáhrifum. Hins vegar bendir nefndin á að til meðferðar á þinginu er frumvarp til laga um umhverfismat áætlana. Ef það frumvarp verður að lögum er þar m.a. gerður áskilnaður um að áætlanir landshlutaverkefnanna þurfi að sæta mati á umhverfisáhrifum. Rétt er þó að nefna að í frumvarpinu kemur fram að eingöngu þær áætlanir sem hljóta endanlega afgreiðslu eftir 21. júlí 2006 munu falla undir gildissvið laganna. Nefndinni hafa borist þær upplýsingar að vinna sé í gangi um sérstakt svæðisskipulag fyrir Norðurlandsskóga og að því sé stefnt að það, ef samþykkt verður, verði fyrirmynd að sambærilegum áætlunum fyrir hin landshlutaverkefnin. Nefndin telur að þær áætlanir þurfi að fara í umhverfismat samkvæmt framangreindu frumvarpi um umhverfismat áætlana ef það verður að lögum. Enn fremur má nefna að endurskoða á landshlutaáætlun á a.m.k. tíu ára fresti og oftar ef ljóst er að forsendur hennar bresta, eins og fram kemur í 4. gr. frumvarpsins. Ef sú endurskoðun á landshlutaáætlun hefur í för með sér efnisbreytingar á henni leiðir það til þess að áætlunin eða sá hluti hennar þarf að fara í mat á umhverfisáhrifum. Nefndin telur mikilvægt að áætlanir skógræktarverkefnanna fari í mat á umhverfisáhrifum og leggur því áherslu á að vinna sambærileg þeirri sem nú er í gangi varðandi Norðurlandsskóga haldi áfram og því munu allar áætlanir lúta framangreindu frumvarpi um umhverfismat áætlana verði það að lögum.

Nokkur umræða varð í nefndinni um 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um stjórnir landshlutaverkefnanna og telur nefndin að halda eigi því fyrirkomulagi sem lagt er til í frumvarpinu og er í samræmi við núgildandi lög um Héraðsskóga og Suðurlandsskóga. Það felur í sér að fækkað er um einn stjórnarmann, fulltrúa frá Skógræktarfélagi Íslands, í þeim verkefnum sem starfað hafa samkvæmt lögum um landshlutabundin skógræktarverkefni. Á það hefur verið bent að þrátt fyrir að Skógræktarfélag Íslands vinni að skógrækt, þá er um að ræða frjáls félagasamtök sem hafa lítilla sem engra hagsmuna að gæta er kemur að ræktun nytjaskóga á bújörðum. Er með þessu á engan hátt kastað rýrð á annars víðfeðmt og öflugt starf skógræktarfélaganna í landinu. Með fækkun í stjórnum verkefnanna er ætlunin að gera stjórnirnar skilvirkari og draga úr kostnaði við starf þeirra. Nefndin telur stjórnir verkefnanna skila miklum árangri, ekki síst hvað varðar tengsl við heimamenn, kynningu á verkefnunum og almennan stuðning við hvers konar uppbyggingu þeirra.

Ábendingar bárust nefndinni um að rétt væri að fella brott 1. málsl. 3. mgr. 5. gr. er fjallar um að Skógrækt ríkisins veiti aðstoð og faglegar leiðbeiningar við verkefnin. Sambærilegt ákvæði er nú í lokamálslið 8. gr. núgildandi laga um landshlutabundin skógræktarverkefni. Skógrækt ríkisins hefur mikla fagþekkingu og eitt af lögbundnum hlutverkum hennar er m.a. að leiðbeina um meðferð skóga og kjarrs og annað það sem að skógrækt og skóggræðslu lýtur, sbr. 3. tölul. 1. gr. laga um skógrækt, nr. 3/1955. Sú þjónusta sem Skógrækt ríkisins veitir landshlutaverkefnunum er í eðli sínu sú sama og skógræktarfélög og þegnar landsins geta vænst af henni, þ.e. fyrst og fremst í formi þekkingar. Í frumvarpinu er verið að árétta það hlutverk sem Skógrækt ríkisins hefur nú þegar samkvæmt lögum um skógrækt.

Verður nú gerð nánari grein fyrir breytingartillögum nefndarinnar:

1. Lögð er til breyting á 2. gr. frumvarpsins þannig að skilgreiningin á landbótaskógrækt verði ítarlegri og tekið verði inn í skilgreininguna að um sé að ræða ræktun skógar á „illa förnu eða eyddu landi“ með það að meginmarkmiði að „auka gróðurþekju, bæta jarðveg og vatnsbúskap og auka þannig gildi landsins til margvíslegra nytja“ í stað þess að tilgreint sé að meginmarkmiðið sé að fegra land og nýta verndarmátt skóga.

2. Lagðar eru til breytingar á 3. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi að í stað heitisins Héraðsskógar á Austurlandi sé heppilegra að hafa heitið Héraðs- og Austurlandsskógar þar sem það heiti er í betra samræmi við landshlutann í heild og tekur af allan vafa um að verkefnið nái ekki eingöngu til Héraðsskóga. Í öðru lagi leggur nefndin til að bætt verði við 3. mgr. að landbúnaðarráðherra geti, í samráði við Skógrækt ríkisins, falið stjórn landshlutaverkefnanna umsjón annarra tengdra verkefna í landbótum en ekki eingöngu í skógrækt eins og nú er kveðið á um í málsgreininni. Í því sambandi má t.d. nefna að Skjólskógar á Vestfjörðum hafa umsjón með verkefninu „Bændur græða landið“ í samstarfi við Landgræðsluna. Einnig hefur endurheimt votlendis verið nefnt sem hugsanlegt landbótaverkefni og Hekluskógar er metnaðarfullt landgræðslu- og skógræktarverkefni sem Suðurlandsskógar taka þátt í.

3. Nefndin leggur til breytingar á 10. gr. um að felldur verði út í 1. mgr. áskilnaður um að landbúnaðarráðherra staðfesti ársskýrslur og ársreikninga landshlutaverkefnanna og einnig að 2. mgr. falli brott en þar segir að reikninga sem endurskoðaðir eru af Ríkisendurskoðun skuli birta í Stjórnartíðindum. Nefndin telur að ákvæðið sé óþarft því lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, og lög um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, fjalla um meðferð ársskýrslna og ársreikninga.

Eins og fram hefur komið er frumvarpinu ætlað að sameina landshlutabundin skógræktarverkefni í ein lög en athugasemdir komu upp um að heppilegra væri að endurskoða fyrst lög um skógrækt en nefndin telur að sú endurskoðun standi ekki í vegi fyrir þeirri endurskoðun sem fer fram nú með frumvarpinu um landshlutaverkefni í skógrækt.

Nefndin vekur athygli á að núgildandi skógræktarlög, nr. 3/1955, eru komin til ára sinna og þarfnast heildarendurskoðunar og sama má segja um lög um landgræðslu, nr. 17/1965, og beinir nefndin því til ráðuneytisins að sú vinna fari fram sem fyrst.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, Gunnar Örlygsson og Margrét Frímannsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Magnús Stefánsson, Guðmundur Hallvarðsson, Jón Bjarnason, með fyrirvara, Guðjón Ólafur Jónsson og Valdimar L. Friðriksson.