132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[15:41]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun).

Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar sem hafa það markmið að jafna réttarstöðu sambúðarfólks og er m.a. lagt til að samkynhneigð pör geti skráð sambúð sína í þjóðskrá. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um ættleiðingar svo pör í staðfestri samvist og sambúð geti ættleitt börn og breytingar á lögum um tæknifrjóvgun svo konur í staðfestri samvist eða sambúð geti gengist undir tæknifrjóvgun.

Nefndin hefur í vetur fram á vor átt fjölmarga fundi um þetta mál, fengið til sín nokkurn fjölda af gestum eins og gerð er grein fyrir á þingskjalinu. Það bárust fjölmargar umsagnir og töluvert mikil vinna hefur farið í að vinna þetta mál áfram í nefndinni. Eins og sjá má á breytingartillögu á þskj. 1182 leggur nefndin til nokkrar breytingar en ég vil leggja áherslu á að hér er fyrst og fremst um að ræða orðalagsbreytingar og eftir atvikum lagatæknilegar breytingar á málinu en mikil samstaða hefur verið um afgreiðslu málsins hvað þessar breytingar snertir í nefndinni þó að um einstök atriði hafi verið þó nokkuð mikið rætt, til að mynda um vígslurétt trúfélaga og ég hygg að á þinginu hafi komið fram sérstakt frumvarp sem kemur inn á þau efni.

Það er almennt um þetta mál að segja að með því er lagaleg réttarstaða samkynhneigðra para tryggð að jöfnu við gagnkynhneigð pör og það eru hin stóru tíðindi sem felast í málinu. Eftir þá skoðun sem fram hefur farið á réttarstöðu samkynhneigðra para kom í ljós að á ýmsum sviðum þurfti að gera bragarbót, gera þurfti lagfæringar á lögum til þess að færa réttarstöðu þeirra til jafns við gagnkynhneigða. Það er mat nefndarinnar að því markmiði sé náð með þessu frumvarpi.

Ég hyggst ekki fara í neinum smáatriðum yfir þau atriði sem tekin eru til umfjöllunar í nefndarálitinu. Ég vek athygli á því að nefndin gefur frá sér allítarlegt álit þar sem tekin eru til umfjöllunar öll þau atriði sem reynir á í málinu. Ég ætla þó að staldra hér við tvö eða þrjú atriði sem ég tel ástæðu til að hnykkja sérstaklega á í þessari framsögu minni.

Það er þá í fyrsta lagi í kaflanum um nafnleynd þar sem allsherjarnefnd vekur athygli á mikilvægi þess að tekin verði upp frekari umræða um rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Hér er um að ræða rétt barna til þess að vita hver uppruni þeirra er þegar notast hefur verið við gjafasæði en þó nokkuð mikil umræða hefur orðið um þessi mál í öðrum ríkjum. Sums staðar hafa ríki sett reglur sem tryggja 18 ára einstaklingum að sækja upplýsingar um uppruna sinn og nefndin sendir þetta nefndarálit frá sér með ábendingu um að það sé mikilvægt að þessi umræða fari af stað og hefjist hér á Íslandi fyrir alvöru og þetta verði tekið til nánari skoðunar. Ég held ég geti talað fyrir hönd nefndarmanna um að almennt hafi vilji nefndarmanna staðið til þess að tryggja þennan rétt en á sama tíma vilja menn ekki valda því að það dragi úr framboði á gjafasæði eins og vísbendingar eru um að gerst hafi annars staðar þegar slíkar reglur hafa verið innleiddar.

Í annan stað ætla ég að staldra aðeins við kaflann um hugtakanotkun sem er að finna í nefndarálitinu. Ástæðan fyrir því er sú að langflestar af breytingartillögum nefndarinnar lúta að hugtakanotkuninni í frumvarpinu.

Svo ég leyfi mér að lesa hér upp úr nefndarálitinu, með leyfi forseta, segir þar:

„Nefndin ræddi þá lagatæknilegu aðferð í frumvarpinu sem felur í sér að afnema úr lögum hugtökin faðir, móðir, karl og kona. Fram kom að sú leið byggðist m.a. á tillögum í skýrslu um réttarstöðu samkynhneigðra sem lögð var fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi (þskj. 381 – 337. mál) og erlendri fyrirmynd. Þá hefur sú leið verið farin í fleiri lögum að kynleysa hugtök, t.d. í almennum hegningarlögum, nema það leiði af eðli máls að nauðsynlegt sé að tiltaka kynferði.

Telur nefndin ákveðinn missi að þessum hugtökum úr lögum og þá sérstaklega úr barnalögum og lögum um ættleiðingu og telur ekki nauðsynlegt að kynleysa ákvæðin. Leggur nefndin því til breytingar á frumvarpinu sem eru eingöngu lagatæknilegs eðlis og fela í sér að halda orðalagi gildandi laga að mestu óbreyttu en bæta við eftir því sem við á ákvæði um einstaklinga í staðfestri samvist og sambúð.“

Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til umfjöllunar í nefndaráliti allsherjarnefndar sem nefndarmenn stóðu að með þeirri undantekningu að Sigurjón Þórðarson gerði fyrirvara en Birgir Ármannsson og Björgvin G. Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.