132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[15:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum nú komin á lokasprettinn með mál sem við höfum verið að vinna að í allsherjarnefnd í allan vetur meira og minna. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir eljusemi í vinnu við málið. Það var afar vel að verki staðið við þá vinnu og ég held að við séum öll sammála um að niðurstaðan sé mjög góð.

Hér er um að ræða bandorm sem er í sjálfu sér flókinn í uppbyggingu og að eðli. Þar af leiðandi var ekki einfalt fyrir nefndina að fara í gegnum þetta mál og í það var tekinn sá tími sem þurfti. Við náðum það vel utan um málið að mínu mati að ég tel fulla ástæðu til að þakka nefndinni fyrir það og formanni hennar fyrir að stýra þessari vinnu vel.

Saga samkynhneigðra er öðrum þræði saga fordóma og niðurlægingar. Við Íslendingar erum engir eftirbátar annarra þjóða í þeim efnum, samkynhneigðir hafa þurft að búa við niðurlægingu og fordóma á Íslandi eins og annars staðar.

Árið 1996 var þó stigið mjög stórt skref til að bæta úr þessu, skref sem olli að ég held straumhvörfum í almenningsálitinu, skref sem varð til þess fallið að kveða niður fordómaraddirnar. Það skref var auðvitað þegar Alþingi lögfesti ákvæði um staðfesta samvist.

Þegar allt kemur til alls erum við jú öll eins og það er ógæfa okkar að vera stöðugt að skipta fólki upp í hópa. Krafa samfélagsins á að vera sú að við getum öll fengið að lifa með reisn, sama hvaðan við komum eða hvert við stefnum, hvernig við erum á litinn eða hver kynhneigð okkar er. Mér hefur satt að segja fundist það önugt þegar ævinlega þarf að aðgreina samkynhneigða frá öðru fólki í samfélaginu. Ekki erum við sem erum gagnkynhneigð stöðugt að tala um að við séum gagnkynhneigð, enda skiptir það engu máli. Það skiptir heldur engu máli að samkynhneigðir séu samkynhneigðir. Það skiptir bara máli að við höfum öll sama rétt í samfélaginu.

Ég tel það mikið fagnaðarefni að við skulum vera að ná því í gegnum Alþingi núna að veita samkynhneigðum sama rétt og öðrum. En þó er eitt skref eftir til að klára þetta mál, skref sem við getum haft í huga þar sem við eigum aðild að stjórnarskrárnefndinni sem er að störfum. Hvað segir í 65. gr. stjórnarskrárinnar um það hvernig menn skuli vera jafnir fyrir lögunum? Þar segir að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Vantar ekki bara eitt orð þarna inn? Vantar ekki bara orðið kynhneigð þarna inn?

Mér finnst það ekki ofgert af okkur sem störfum á löggjafarsamkundu Íslendinga að vinna að því að orðið kynhneigð sé sett inn í 65. gr. stjórnarskrárinnar þannig að tryggt sé að samkynhneigðir hafi það staðfest og skjalfest í bak og fyrir í stjórnarskránni að óheimilt sé samkvæmt stjórnarskrá Íslendinga að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar.

Hvatning mín úr þessum ræðustóli til þingmanna er sú að þar sem við erum með málið í skoðun og stjórnarskrárnefndin er að störfum sé fullkomlega tímabært að verða við kröfum Samtakanna 78 um að 65. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt að þessu leyti. Ég tel að slík breyting sé ekkert annað en eðlilegt framhald á þeim réttarbótum sem gerðar hafa verið á Alþingi og verið er að gera núna með því frumvarpi sem við ræðum hér. Ég held því fram að þau skref sem hingað til hafa verið tekin af löggjafarsamkundunni hafi verið til þess fallin að kveða niður fordóma eins og ég sagði áðan. Þau hafa breytt viðhorfum í samfélaginu. Ég tel að þau skref sem við erum að taka eigi áfram eftir að breyta viðhorfum til hins betra og tel að þá sé einungis eftir þetta litla skref til að segja megi að fullnaðarsigur sé unninn.

Ég gæti svo sem rætt um heimild trúfélaga til að vígja samkynhneigð pör, mér finnst það auðvitað alveg sjálfsagt mál. Kannski er það líka eitthvert hænufet sem við eigum eftir að taka eða trúfélögin eiga eftir að ræða í sínum ranni. Ég held að það skref sem tekið er hér af löggjafarsamkundunni hljóti að hreyfa við öllum sem vinna að málefnum samkynhneigðra í samfélaginu. Ég tel að það sé bara orðið herslumunur sem upp á vantar.

Hér væri hægt að hafa langt mál en ég fagna þessu nefndaráliti og tel það vera afar greinargott og tek undir þau sjónarmið sem þar koma fram.