132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[16:19]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það er mikil gleði í mínu hjarta í dag að þetta mál sé komið svo langt sem raun ber vitni. Mér hefur frá því að ég fór að hafa vit til sviðið það óréttlæti sem samkynhneigðir hafa þurft að mæta, að fá ekki sjálfsögð réttindi á við aðra einstaklinga í íslensku samfélagi. Það er því mikil gleði í hjarta mínu í dag að nú sé gengið jafnlangt og hér er gert og samkynhneigðum heimilt að ættleiða börn, gangast undir tæknifrjóvgun og fleiri mjög mikilvægar réttarbætur gerðar.

Ég verð líka að segja að ég er ákaflega stolt af mínu fólki, samfylkingarfólki, sem hefur staðið í þessari vinnu með hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur í broddi fylkingar. Hún hefur barist fyrir því í nokkur ár að ná þeirri pólitísku samstöðu sem er að nást um þetta mikilvæga mál. Þetta er mjög stórt skref í átt að réttlátara samfélagi og ég tel að við eigum að stíga fleiri slík glæsileg skref á næstu árum. Við eigum að taka þetta vinnuferli okkur til fyrirmyndar hér á þingi, að ná slíkri pólitískri samstöðu um mikilvægar réttarbætur til hópa.

Virðulegi forseti. Eitt atriði skyggir þó örlítið á gleði mína og það er að ekki skuli hafa verið gengið alla leið í þessum réttarbótum, að óskum trúfélaga skuli ekki hafa verið svarað. Það eru trúfélög í landinu sem hafa óskað eftir því að fá að staðfesta samvist samkynhneigðra og ég hefði viljað sjá að skrefið yrði stigið til fulls og þeim heimilað að gera það. Af því varð ekki en ég vona að þingmál Guðrúnar Ögmundsdóttur þar að lútandi verði samþykkt á næsta þingi og þá verði það skref stigið til fulls. Það mál snýst í grunninn um að heimila trúfélögum að staðfesta samvist samkynhneigðra para. Ég tel mjög mikilvægt að láta ekki eitt trúfélag standa í vegi fyrir öðrum að gera það sem þau telja rétt og er samkvæmt sannfæringu þeirra og trú rétt að gera. Við hér á Alþingi getum ekki staðið í vegi fyrir því en það gerum við meðan við veitum þeim trúfélögum sem hafa óskað eftir því að staðfesta samvist samkynhneigðra ekki heimild til þess. Þá stöndum við í vegi fyrir því að þau sinni því sem þau telja sanngjarnt og því sem þau eru sannfærð um að eigi að vera hluti af starfi þeirra. Það tel ég ekki rétt.

Hér eru, eins og ég sagði áðan, stigin mjög stór og mikilvæg skref og fagna ég því. Ég vil líka í lokin segja að mér hefur þótt það afar einkennilegt hvernig við höfum í áranna rás verið að skammta réttindi í smáskömmtum, hér hafa verið stunduð einhvers konar smáskammtafræði. Nú er ekki um neina smáskömmtun að ræða heldur er verið að veita stóran skammt. En þó er ekki allt búið enn. Ég vonast til þess að á næsta þingi náist sama pólitíska samstaða um þingmál Guðrúnar Ögmundsdóttur um að heimila trúfélögum að staðfesta samvist samkynhneigðra. Þá tel ég að við séum komin með málið í höfn og getum borið höfuðið hátt hvað það varðar að hér á landi sitji allir við sama borð og hafi sömu réttindi óháð kynhneigð sinni.

Ég vil rétt í lokin senda kveðjur til þings, til þjóðar og til samkynhneigðra og þá ekki síst frá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni sem hefur staðið að þessari vinnu í allsherjarnefnd en gat því miður ekki verið hér í dag. Ég ber kveðju hans, það mun hvorki standa á honum né mér eða öðrum að samþykkja tillögu Guðrúnar Ögmundsdóttur á næsta þingi um að heimila trúfélögum að staðfesta samvist samkynhneigðra. Ég hvet þingheim til þess að gera það hratt og vel næsta haust.