132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[16:25]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu heldur aðeins að leggja orð í belg og taka undir þá miklu gleðibylgju sem gengur um þingsalinn í þessu máli. Það er ekki oft sem næst jafnrík og sterk samstaða allra pólitískra flokka í jafnviðkvæmu máli og hér er um að ræða. Það ber að fagna þeirri samstöðu sem náðist í málinu sem er afar viðkvæmt og það ber að þakka hv. allsherjarnefnd fyrir þá miklu vinnu sem hún lagði í það. Allir nefndarmenn lögðu sig greinilega fram um að ná saman þannig að nefndin gæti skilað einu áliti og þokað þessu mikilvæga máli áfram.

Það er rétt að minna á að þetta mál er upphaflega flutt af hæstv. forsætisráðherra og byggist frumvarpið á vinnu nefndar á vegum forsætisráðuneytisins. Sú nefnd lagði til ýmsar leiðir en má segja að með þeirri leið sem valin er í frumvarpinu sé gengið hvað lengst af þeim möguleikum sem lagðir voru fram í vinnuhópi forsætisráðuneytisins. Hér er sem sagt verið að ganga nokkuð langt í átt til jafnréttis, hér er verið að stíga mikilvæg skref til réttarbótar í íslensku samfélagi. En við þurfum ekkert að ganga þess dulin að málið er viðkvæmt eins og við höfum séð af umræðum frá því að það fyrst kom fram. Það er viðkvæmt í samfélaginu og einmitt þess vegna er mikilvægt að hv. allsherjarnefnd skuli hafa náð fullkominni samstöðu, vegna þess að það er viðkvæmt en líka vegna þess að það færir okkur mikla réttarbót í samfélag okkar og færir Ísland enn til jafnréttisáttar.

Í rauninni þarf ekki meira um það að segja. Ég árétta að ég fagna og þakka hv. allsherjarnefnd fyrir þá góðu vinnu sem hún lagði í þetta, ekki síst það að nefndarmenn skuli allir standa saman að þessu áliti. Hér er sannarlega stigið stórt skref í átt til jafnréttis og réttarbótar og þó að einhverjir hefðu viljað ganga lengra skulum við ekki gleyma því að hér eru stigin ánægjulega stór skref og ekki ósennilegt að haldið verði áfram á þeirri braut eftir því sem málið þroskast.