132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[16:28]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni hér um hamingjuóskir til þeirra sem þetta mál snertir sérstaklega. Ég tek jafnframt undir það með þeim að starfið í nefndinni hefur verið afskaplega ánægjulegt og hefur gengið vel í alla staði.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp aftur er umræðan sem hefur farið fram um stöðu trúfélaganna og heimild þeirra til þess að staðfesta samvist. Eins og hér hefur verið rætt um barst beiðni frá trúfélögum um að fá heimild til þess að staðfesta samvist. Ég kom hingað upp til að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel það mál í réttum farvegi. Það er í réttum farvegi vegna þess að það þarf að skoða það í víðu samhengi. Eins og merkja mátti af þeirri stuttu umræðu sem farið hefur fram í dag komu fram ólík sjónarmið. Hér komu fram sjónarmið um að þetta væri tiltölulega lítið skref. Á sama tíma komu fram sjónarmið um að gera ætti grundvallarbreytingu á kerfinu, þ.e. þá breytingu að afnema í raun og veru með öllu heimild trúfélaganna til þess að vígja saman hjón, og þar með félli hugmyndin um heimild til trúfélaga til að staðfesta samvist um sig sjálfa. Ég held að það sé ljóst, þó ekki nema af þeirri stuttu umræðu sem fram hefur farið í dag, að þetta mál þarf að skoða af yfirvegun og það er rétt að slíta það úr samhengi við þær réttarbætur sem gerðar eru með þessu frumvarpi.

Það er skoðun allsherjarnefndar að lagaleg réttarstaða samkynhneigðra para sé með þessu máli tryggð að jöfnu við gagnkynhneigð pör og er þá ekkert undanskilið. Ekki það atriði sem hér hefur verið talað um sem ósk trúfélaganna — ég vek athygli á því að mest hefur verið rætt um að þessi ósk hafi komið fram af trúfélaganna hálfu en í störfum nefndarinnar varð afskaplega lítið vart við ósk samkynhneigðra um þá breytingu sem hér er verið að fjalla um. Ég undanskil heldur ekki þá umræðu sem fram kom í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þar sem hún velti því upp hvort ekki væri rétt að gera breytingar á stjórnarskránni í þá veru sem hún nefndi, þ.e. að taka inn í 65. gr. kynhneigð.

Ég kem hingað upp til þess að lýsa þeirri skoðun minni að málefni sem varða trúfélögin, annars vegar heimildir þeirra til vígslu og eftir atvikum í framtíðinni til að staðfesta samvist, þurfa að eiga sér annan og lengri aðdraganda en þann að því kerfi sé breytt með breytingartillögu við þetta frumvarp. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það mál sé í réttum farvegi, það er til að mynda til umfjöllunar innan þjóðkirkjunnar. Fyrir þinginu liggja sérstök þingmál sem fjalla um þetta atriði sérstaklega og ég tel að þau mál þurfi að fara til umsagnar og hljóta yfirvegaða og gaumgæfilega umfjöllun og umræðu áður en breytingar verða gerðar í þessu efni. Ég get þá að lokum lýst þeirri skoðun minni að mér þykir alveg eins koma til álita í því samhengi að fara þá leið sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi, þ.e. að trúfélögin framkvæmi ekki hina borgaralegu athöfn, að vígja saman hjón, eins og verið hefur, heldur verði það gert að raunverulegri borgaralegri athöfn og það verði þá fyrst og fremst trúfélaganna að veita blessunina allt eftir höfði hvers trúfélags fyrir sig.

Um þetta verður væntanlega fjallað síðar þegar þau mál verða hér sérstaklega á dagskrá og ég læt því máli mínu lokið.