132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.

695. mál
[17:10]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, frá menntamálanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund gesti.

Í frumvarpinu er lagt til að Kvikmyndaskoðun ríkisins verði lögð niður og að ábyrgðaraðilar, þ.e. framleiðendur, útgefendur, sýningaraðilar og smásöluaðilar kvikmynda og tölvuleikja, beri sjálfir kostnað af að koma upp og reka skoðunarkerfi fyrir kvikmyndir og tölvuleiki. Gert er ráð fyrir að ábyrgðaraðilarnir setji sér verklagsreglur að fyrirmynd erlendra skoðunarkerfa og að verklagsreglurnar taki til stjórnunar aðgangs að kvikmyndahúsum og afhendingar kvikmynda og tölvuleikja á sölustöðum og í myndbandaleigum. Einnig verður Barnaverndarstofu falið töluvert hlutverk við framkvæmd laganna.

Í 5. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um eftirlit, stöðvunarúrræði og endurmat ábyrgðaraðila og Barnaverndarstofu. Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á greininni sem lúta einkum að uppröðun málsgreina og orðalagsbreytingum til að varpa skýrara ljósi á hlutverk Barnaverndarstofu og samspil hennar við lögreglu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Björgvin G. Sigurðsson, Hjálmar Árnason og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Einar Már Sigurðarson og Atli Gíslason.