132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

stjórn fiskveiða.

448. mál
[17:45]
Hlusta

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum, frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar:

„Við 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal endurgreiða gjald vegna úthlutunar aflaheimilda í rækju á Flæmingjagrunni fyrir árið 2006 og skal veiðigjald fyrir árin 2006, 2007 og 2008 innheimt í lok hvers árs miðað við rækjuafla hvers skips á því ári.“

Þannig hljóðar breytingartillagan. Ég ætla í stuttu máli að gera grein fyrir henni.

Íslensk skip hafa stundað rækjuveiðar á Flæmingjagrunni frá árinu 1993. Á síðustu árum hefur dregið mjög úr sókninni vegna lækkandi afurðaverðs og aukins tilkostnaðar, sérstaklega vegna hás olíuverðs. Á síðasta ári stundaði einungis eitt skip þessar veiðar og nú hefur verið gerður samningur um sölu á því úr landi. Óvíst er hvenær rækjuveiðar á Flæmingjagrunni hefjast að nýju.

Rökin fyrir breytingunum á lagaákvæðum sem varða úthafsrækjuveiðar í íslenskri lögsögu eiga ekki síður við um rækjuveiðar á Flæmingjagrunni og því er þessi breyting á lögunum lögð til.