132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[10:50]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Um er að ræða verulegar hækkanir á ýmsum gjöldum, einkum þeim sem snúa að útlendingum, fólki sem er að sækja um ríkisborgararétt. Hér er kveðið á um að gjald vegna umsóknar um íslenskan ríkisborgararétt skuli hækka úr 1.350 kr. í 10 þús. kr., þ.e. um 8.650 kr. sem er hækkun upp á 640%. Síðan á gjald vegna tilkynningar um íslenskan ríkisborgararétt að hækka úr 1.350 í 5 þús. kr., þ.e. um 3.650 kr., um 270%. Þessi gjaldtaka getur verið drjúg og þung fyrir láglaunafólk sem hér hefur komið til landsins og við teljum þessa hækkun óforsvaranlega og greiðum atkvæði gegn henni.