132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

651. mál
[11:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að samþykkja lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og hryðjuverkum. Þetta lagafrumvarp þjónar því markmiði og er prýðilegt um margt. Í því eru hins vegar alvarlegar brotalamir og sú alvarlegasta snýr að skilgreiningu á hryðjuverkum. Mörg ríki, þar á meðal Ísland, hafa fylgt fordæmi Bandaríkjastjórnar í svokallaðri baráttu gegn hryðjuverkum og hert löggjöf sína í sumum tilvikum á kostnað mannréttinda. Ég hef trú á að stundum geri menn slíkt óafvitandi.

Í þessu lagafrumvarpi eru hryðjuverk skilgreind. Það er gert í 2. lið 3. gr. en þar segir um fjármögnun hryðjuverka, með leyfi forseta:

„Öflun fjár í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það til að fremja brot sem er refsivert skv. 100. gr. a almennra hegningarlaga.“

Í 100. gr. a almennra hegningarlaga er síðan vísað í aðrar greinar hegningarlaganna, þar á meðal 176. gr. Í þeirri grein er vísað til þess að saknæmt sé m.a. að trufla og stöðva útvarpsrekstur. Á grundvelli þessara laga var forsvarsmönnum starfsmannafélaga útvarps og sjónvarps stefnt fyrir dóm í kjölfar verkfalls BSRB árið 1984. Málið fór fyrir tvö dómstig, endaði í Hæstarétti þar sem ríkissaksóknari krafðist fangelsisvistar. Ákærðir voru sýknaðir. Ef þeir hins vegar hefðu verið fundnir sekir væru þeir í reynd samkvæmt skilgreiningu þessara laga sekir um hryðjuverk og fjárhagslegur stuðningur við starfsmannafélög útvarps og sjónvarps væri saknæmur.

Þetta er hið stóra samhengi málanna sem við þurfum að huga vel að og við verðum að fara mjög gætilega í þessum efnum. Þess vegna munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiða atkvæði gegn 2. lið 3. gr. þessa frumvarps. Við munum styðja frumvarpið að öðru leyti en þegar kemur síðan til afgreiðslu munum við sitja hjá verði engar breytingar gerðar á lögum.