132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

brottfall laga um Flugskóla Íslands hf.

480. mál
[11:48]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er að koma til atkvæða frumvarp til laga um brottfall laga um Flugskóla Íslands hf. Með þessu frumvarpi er ekki aðeins verið að fella úr gildi lög um Flugskóla Íslands hf. heldur einnig í rauninni þau sérgreindu lagaákvæði sem eru í íslenskum lögum um flugnám. Þessu var mótmælt m.a. af Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og af þeim ástæðum flyt ég tillögu til rökstuddrar dagskrár sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Bóklegt nám til að öðlast réttindi til að stjórna flugförum á ekki síður en bóklegt nám til vélstjórnarréttinda og skipstjórnarréttinda að heyra undir menntamálaráðuneytið. Með frumvarpi til laga um brottfall laga um Flugskóla Íslands hf. er hins vegar lagt til að fella úr gildi einu lögin sem fjalla um það hvernig bóklegri menntun flugmanna skuli háttað.

Í núgildandi lögum um Flugskóla Íslands hf. er fólgið aðhald sem ekki er innifalið í aðhaldi Flugmálastjórnar. Þá samræmist sú ráðagerð að fella brott lög um Flugskóla Íslands hf. ekki því markmiði að ávallt skuli þess freistað að tryggja almennt flugöryggi eins og nokkur kostur er hverju sinni.“

Ég tel að það væri miklu réttara að sett væri niður nefnd til að taka á skipan náms í flugi eins og í öðru starfs- og réttindanámi frekar en leggja hér niður einu lögin sem um það fjalla. Þess vegna legg ég til að frumvarpinu verði vísað frá og þessi vinna verði sett í gang í staðinn.