132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:42]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Nú er komið að 2. umr. um frumvarp til laga sem við höfum setið með í allsherjarnefndinni mjög lengi, mér finnst það hafa verið í allan vetur. Við höfum unnið málið afar vel undir stjórn formanns nefndarinnar, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, og eins og kom fram í máli hans hefur flestum steinum verið velt við. Það er ljóst að um mikið ágreiningsmál er að ræða og það er eðlilegt þar sem mál af þessu tagi, forsjármál, eru ekki eins og hver önnur stjórnsýslumál. Hér erum við að tala um mál sem rekin eru fyrir dómstólum eða ekki fyrir dómstólum á tilfinningalegum grunni og engu öðru. Það vita þeir sem vita vilja að þegar hjón skilja, slíta samvistum, geta risið upp alls kyns hlutir sem erfitt er að aðstoða fólk við að komast í gegnum.

Það er tvennt í þessu máli. Ég er sammála því að nefndarálitið sé afar greinargott og nefndin lagði mikið í að skrifa það. Það var ekki klárað fyrr en við vorum orðin það sátt við það að hægt var að afgreiða það úr nefndinni. Það var kannski ekki ljóst allan tímann að það mundi takast. Ég verð samt að segja um það tvennt sem er ásteytingarsteinn í málinu — annars vegar það hvort sameiginlega forsjáin eigi að vera meginleið samkvæmt lögum eða ekki og hins vegar hvort heimila eigi dómurum að dæma eina forsjá — eru mín sjónarmið eftirfarandi: Ég er ekki á því að dómarar eigi að hafa heimild til að dæma sameiginlega forsjá og er sátt við leiðina sem farin er í frumvarpinu. Ég hef verið tvístígandi og sveiflast á milli póla hvað það varðar að hafa hina sameiginlegu forsjá að lagalegri meginleið, sem er auðvitað meginatriði frumvarpsins. Eftir mikla umfjöllun og mikinn tíma, nánast allan þennan vetur, yfir málinu er ég komin á þá skoðun að farsælla sé að fara aðra leið.

Það er ljóst og hefur orðið æ skýrar, eftir því sem nefndin hefur fjallað meira um málið, að víða er pottur brotinn í meðferð forsjármála í kerfi okkar. Eitt af því sem við fengum inn á okkar borð, sem ég tel alvarlegt og tel að við sem hér sitjum og erum kjörin til að gæta hagsmuna fólks úti í samfélaginu þurfum að taka til skoðunar, lýtur að sýslumannsembættunum, þ.e. hversu vanbúin þau eru til að leiða erfið forsjármál til lykta. Sömuleiðis tel ég alvarlegt að ekki skuli vera meiri festa en raun ber vitni í þessum málum hjá dómstólunum. Kannski er það vegna þess að dómarar eru of margir og of ólíkir. A.m.k. er erfitt að bera saman þá dóma sem fallið hafa, þeir eru ekki rökstuddir á sama hátt og greinilega afskaplega ólíkum vinnuaðferðum beitt frá einum dómara til annars.

Sá dómari sem vakið hefur mesta athygli fyrir vinnubrögð í þessum málum er fyrrverandi héraðsdómari á Reykjanesi, Jónas B. Jóhannsson. Hann kom fyrir nefndina og lýsti fyrir okkur aðferðum sínum, sem eru sáttaaðferðir, þ.e. sáttameðferð, sem svo hefur verið nefnd. Við í nefndinni fengum frá honum greinargerð um þá aðferð. Menn halda oft, þegar menn detta niður á góðar aðferðir til að greiða úr úrlausnarmálum, að slíkt sé hafi fallið af himnum ofan. En það er ekki svo. Aðferðin er meðvituð og hana er hægt að greina og analísera. Henni má lýsa og skilgreina hvert skref sem í henni er tekið. Eftir yfirferðina með Jónasi fannst mér að nefndin skildi betur á hvern hátt sáttameðferðin virkar. Ég verð að segja að ég féll kylliflöt fyrir því að sú leið, þ.e. sáttameðferðin, yrði lögleidd en ekki sameiginleg forsjá sem meginregla. Það hafa Danir gert, þ.e. lögleitt sáttameðferðina. Við leggjum það ekki til, þ.e. það er ekki lagt til í frumvarpinu. Millistigið sem nefndin fór í ákveðinn leiðangur við að finna eða semja er að finna í kaflanum í nefndarálitinu á bls. 6, um sáttameðferðina. Ég heyrði ekki að öllu leyti ræðu hv. formanns nefndarinnar Bjarna Benediktssonar en ég tel ástæðu til að hnykkja á því. Ég veit ekki hvort hann las þennan kafla frá orði til orðs en ég tel nauðsynlegt að hnykkja á ákveðnum atriðum sem þar koma fram:

„Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að styrkja sáttameðferð og ráðgjöf við skilnað samhliða því að taka upp sameiginlega forsjá við skilnað eða slit skráðrar sambúðar.“

Mér finnst það vera grundvallaratriði að þeir sem koma að skilnaðarmálum og forsjármálum í kerfinu leitist við að ná fram sameiginlegri forsjá. Við það grundvallaratriði er ég sátt. Mér finnst það hins vegar ekki alfa og omega að sú leið sé leidd í lög, að það eigi skilyrðislaust eða sjálfkrafa að vera sameiginleg forsjá við sambúðarslit. Mér finnst að kerfið eigi að leitast við að ná fram sameiginlegri forsjá þannig að það sé ævinlega tryggt að barnið njóti sameiginlegrar forsjár en líði ekki fyrir hana. Nú skulum við ekki vera í neinum blekkingaleik í þessari umræðu. Auðvitað eru þess dæmi að börn hafa liðið fyrir hina sameiginlega forsjá. Til eru dæmi um það að forsjármál hafi farið í svo mikinn hnút að varla nokkur mannlegur máttur hafi getað greitt úr þeirri flækju eða leyst þann hnút.

Við skulum vera meðvituð um að dómarar og starfsfólk sýslumannsembættanna er ekki öfundsvert af því að fá þessi mál inn á sitt borð og eiga undantekningarlaust að ná einhverri niðurstöðu. Við verðum að sýna öllu þessu fólki, ásamt því fólki sem á í deilunum, þann skilning að möguleiki sé á að málin fari eins vel og hugsast getur. Hvað eigum við þá að hafa að leiðarljósi? Bara hagsmuni barnsins, ekkert annað. Mér fannst það merkilegast í umfjöllun um þetta mál. Ég er sannfærð um að við höfum látið réttindi foreldra í þessum efnum flækjast fyrir okkur í kerfinu. Það eigum við ekki að gera. Foreldrarnir eiga engan rétt í þessum málum. Í forsjármálum eru það bara börnin sem eiga rétt. Það er bara út frá hagsmunum barnsins sem á að horfa á málið. Auðvitað sjá það allir í hendi sér sem á mál mitt hlýða að það er ekki einfalt mál. Maður þarf sennilega að kljást við ýmsa fordóma eða blekkingu í kollinum á sér áður en maður getur verið viss um að í svona málum sé unnið út frá hagsmunum barnsins. En lögin gera ráð fyrir því og þannig þurfa allir sem koma að þessum málum að horfa á þau. Þvingunarúrræði í svona málum eru alltaf óyndisúrræði.

Það sem skiptir foreldra hins vegar máli er að þeir fá á tilfinninguna, í gegnum vinnu við málið, að þeir séu þátttakendur í leit að niðurstöðunni, séu sjálfir að skapa sér raunveruleika með öflugri aðstoð frá fagfólki sem geti virkilega liðsinnt. Ég tel að það sé lykilatriði að hinn félagslegi stuðningur sé til staðar. Hann þarf að koma til fyrr í kerfinu en núna er. Ég held að við þurfum líka að horfa á hvernig þessi mál eru meðhöndluð í kerfinu, t.d. hvort það séu ekki allt of margir sem koma að þeim. Ég vil ítreka þau skilaboð sem koma fram í nefndaráliti okkar í allsherjarnefnd til starfsfólksins, til sýslumanna, til þeirra sem starfa hjá sýslumannsembættunum, til dómara og þeirra sem starfa hjá dómstólunum, að láta einskis ófreistað við að hafa foreldrana með í því að finna niðurstöðuna til að leysa deiluna.

Í nefndarálitinu segjum við að það hafi komið fram við skoðun nefndarinnar að stundum hafi skort á sáttaleiðir, að þær hafi verið fullreyndar, þ.e. sáttaleiðir sem hafa verið til staðar í kerfinu. Málin hafa jafnvel verið komin á lokastig fyrir dómi þegar tekist hefur að ná sáttum. Það er afar athyglisvert þegar við skoðum það sem gerst hefur í Héraðsdómi Reykjaness í þessum málum frá árinu 2001. Þar hefur dómari sem ég nefndi áðan, Jónas B. Jóhannsson, fjallað um 130–140 mál. Við skulum athuga að hann starfar út frá því prinsippi að forða eigi þessum málum frá dómi. Honum hefur með öflugum stuðningi frá samverkamönnum sínum tekist að ná sátt í um 90% málanna, 85–90%. Við skulum athuga að í þeim málum sem hafa verið til meðferðar, þeim sem lengst hafa gengið í að nota sáttameðferð hefur hugmyndin verið sú að dómarinn leysi ekki vandamálin. Séu ekki forsendur, að mati dómara, fyrir sameiginlegri forsjá, sem við verðum að viðurkenna að kemur fyrir, þá verður dómarinn að leggja mikið á sig við að finna á hvern hátt hagsmunum barnsins er best borgið. Hann þarf að leiða stríðandi aðila saman og ná sáttum. Þetta er mikil ögrun og gríðarleg áskorun en árangurinn af aðferðinni er svo ekki verður um villst svo mikill að mér finnst að löggjafarsamkundan geti ekki látið slíkan árangur fram hjá sér fara. Við verðum að viðurkenna að hér er dýrmæt reynsla á ferðinni sem má ekki glatast. Við verðum að tryggja að hægt verði að yfirfæra hana á önnur embætti í landinu, á aðra dómstóla í landinu. Við verðum líka að tryggja að sýslumannsembættin fái tækifæri til að öðlast skilning á þeim aðferðum sem þarna hefur verið beitt.

Við okkur í nefndinni var sögð setning sem festist í mér. Hún var svohljóðandi: „Það er ekkert mál að koma á sameiginlegri forsjá en það er hins vegar mál að láta hana ganga upp.“ Það er sama hvaða lög við setjum á löggjafarsamkundunni. Við getum ekki tryggt, þótt við setjum á sameiginlega forsjá sem meginreglu samkvæmt lögum, að þar með gangi öll sameiginleg forsjá upp. Ég ætla að vona að við gerum okkur ekki þá grillu að við séum þess umkomin. En lokalínan er í mínum huga þessi: Forsjármál þola ekki dóm, þau verða að fara í sáttaferli. Þau þola ekki dóm. Í mínum huga á aldrei að dæma í svona málum og þess vegna er ég alfarið á móti því að hræra í því að heimila dómurum slíkt. Ég er sátt við að frumvarpið skuli ekki fara inn á þá braut og meiri hluti nefndarinnar er sama sinnis.

Í mínum huga eiga forsjármál eingöngu að fara í dóm þegar sáttameðferð er þrautreynd og sýnt verið fram á að hún skili ekki árangri. Það er svo sem margt hægt að segja um þessi mál, frú forseti. Ég hef ákveðið að reyna að takmarka mig í þessari ræðu en vil þó segja að lokum að allsherjarnefnd beinir tilmælum til hæstv. dómsmálaráðherra sem ég tel mikilvægt að fylgja eftir. Ég treysti því að hv. formaður nefndarinnar komi til með að fylgja því í eftir í sumar og næsta haust þegar við komum aftur saman til starfa á Alþingi Íslendinga. Tilmælin sem ég sendi ráðherranum eru þau að hrinda af stað vinnu við endurskoðun á öllu þessu vinnuferli og sérstaklega að litið verði til þróunar og reynslu í nágrannalöndum okkar. Ég nefni það að Danir hafa lögfest sáttameðferðina. Við vísum í það og lítum svo á að sáttameðferð sé mikilvæg.

Við teljum að nauðsynlegt sé að farið verði í endurskoðunarvinnu á sáttaferli þessara mála, bæði hjá sýslumanni og fyrir dómstólum. Í nefndarálitinu kemur fram að í því starfi sé nauðsynlegt að haft verði náið samstarf við þá aðila sem að þessum málum koma og að mati nefndarinnar eru vísbendingar um að miklum árangri megi ná með markvissari vinnubrögðum á þessu sviði. Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra til að taka mið af því sem nefndin leggur fram og óskar eftir við hann. Ég held að það komi til með að færa okkur fullkomnari löggjöf heldur en þeirri sem hér fer í gegnum þingið.

Ég er ekki sannfærð um að lögleiða eigi sáttameðferðina sem meginreglu. Ég er satt að segja ekki búin að gera upp hug minn endanlega, um hvort ég kem til með að sitja hjá við afgreiðslu þess þáttar málsins eða ekki. En ég vil engu að síður þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir mjög góða vinnu í málinu sem er algerlega til fyrirmyndar. Svona á að taka á erfiðum málum í þinginu. Við eigum að vinna þau þangað til að ekki er hægt að komast lengra í átt til sátta. Ég tel að að hafi verið gert hér og það er til sóma.