132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[14:20]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Mig langar í upphafi máls míns að þakka félögum mínum, hv. þingmönnum sem sitja í allsherjarnefnd, fyrir mjög ánægjulegt samstarf við þetta frumvarp. Það hefur komið fram, bæði hjá formanni nefndarinnar, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, og hjá öðrum nefndarmönnum, að það eru skiptar skoðanir um tilteknar leiðir, meira að segja um sameiginlega forsjá sem meginregluna. Skoðanir eru einnig skiptar um það hvort heimila eigi dómurum að dæma forsjána sameiginlega.

En burt séð frá því var vinnan í nefndinni, sem stóð meira og minna í allan vetur, óskaplega góð og gagnleg og nefndarmönnum öllum mjög lærdómsrík. Af hálfu formanns og annarra nefndarmanna var þannig að henni staðið að eiginlega komu allar hliðar þessa máls fram. Eftir sem áður er nokkur ágreiningur um hvaða leiðir eigi að fara.

Það sem er kannski meginmálið í þessu öllu er það sem segir beinlínis í barnalögunum sjálfum. Þar segir að það sé meginsjónarmið í barnarétti að við úrlausn allra mála sem varða börn skuli hagsmunir þeirra ráða.

Ástæðan fyrir að ég hef orð á þessu, frú forseti, hér í upphafi ræðu minnar, er m.a. sú að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði áðan að það væri hlutverk okkar hér á þingi að gæta þessara hagsmuna. Vegna þeirra orða vil ég árétta að helstu hagsmunaaðilar barna eru foreldrar þeirra. Það er hvorki löggjafinn, dómstólar, sýslumenn né neinir aðrir. Það vill svo til að önnur meginreglan í barnarétti er sú að foreldrar bera alla þessa ábyrgð sameiginlega. Þeir bera sameiginlega ábyrgð á öllu því sem lýtur að hagsmunum barna. Þeir bera sameiginlega skyldu til að annast barn sitt og sameiginlega ábyrgð á allri velferð þess. Foreldrar gera það meðan hjúskapur eða sambúð varir og rökin fyrir því að setja sameiginlega forsjá sem meginreglu eru þau að standa vörð um þessa sameiginlegu hagsmuni. Þá hagsmuni barna að njóta umönnunar beggja foreldra sinna.

Hjá einstökum ræðumönnum í þessari umræðu er hlutunum stillt þannig upp að þeir sem styðji dómstólaleiðina séu einungis að horfa á hagsmuni foreldra. Ég mótmæli því harðlega vegna þess að af eigin raun og af reynslu margra annarra sem hafa komið nálægt þessum málum þá snúast forsjármál yfirleitt aldrei neitt um forsjá eða umönnun barnanna. Þau snúast um allt annað. Barnið verður bitbeinið í deilunni.

Þess vegna er það mitt sjónarmið að barnið eigi rétt á að dómarinn, til samræmis við meginreglu barnalaganna að hagsmunir barnsins skuli alltaf settir í fyrirrúm, geti þá dæmt þessa forsjá sameiginlega. Foreldrarnir eru yfirleitt ekki að deila um neitt sem varðar barnið. Það er allt annað sem hrindir deilunni af stað. En ég mótmæli því að þeir sem vilja fara þessa dómstólaleið séu að setja hagsmuni foreldra í forgang fram yfir hagsmuni barnsins.

Þegar dómsmálinu lýkur, og því lýkur þá ekki öðruvísi en svo að öðru foreldrinu, þess vegna tveimur hæfum, er dæmd forsjáin, heldur þetta barn áfram að vera til. Það heldur áfram að vera til sem barn beggja foreldra sinna. Það á rétt á umönnun beggja þessara foreldra. En eftir harðvítugar deilur fyrir dómi, þess vegna fyrir héraðsdómi og síðan Hæstarétti, hvaða forsendur eru þá til að þessir foreldrar geti starfað saman að hagsmunum þessa barns? Meðan á málsókninni stendur keppast þau við að tína saman ávirðingar hvort á annað því þau vita að dómarinn á ekki annarra kosta völ en að dæma öðru þeirra forsjána en ekki hinu.

Árið 1992, þegar sameiginlega forsjáin var lögfest sem valkostur, ekki sem meginregla, voru margir sem fundu því ýmislegt til foráttu. Það hefur síðan sýnt sig að vera meginreglan í raun. Mér hefur heyrst innan allsherjarnefndar að þar séu jafnvel þingmenn sem telji henni ýmislegt til foráttu þrátt fyrir það hve vel hún hafi reynst. Það kallaði á mikla viðhorfsbreytingu á sínum tíma. Það þýddi viðhorfsbreytingu að setja sameiginlegu forsjána inn sem valkost fyrir foreldra. Það þýddi líka viðhorfsbreytingu á sínum tíma þegar við settum lögin um jafnan rétt foreldra til fæðingarorlofs. En þau byggjast á nákvæmlega sama grunni og sameiginlega forsjáin.

Frá 1992 og til ársins í ár, í þeim sporum sem við stöndum núna, hefur þessi sameiginlega forsjá sannað sig. Nú erum við að stíga það skref að setja hana sem meginreglu inn í barnalögin. Ég tel að það sé þarft og gott skref. Ég tel að næsta skref hljóti að vera að heimila dómstólunum líka að dæma forsjána báðum foreldrum.

Fyrirvari minn í nefndarálitinu lýtur fyrst og fremst að því að ég vildi fá að gera grein fyrir því hvers vegna ég tel dómstólaleiðina rétta. Að dómarar hafi heimild til en sé ekki bannað að dæma báðum foreldrum forsjá. Það er enginn sem segir að þeir verði að gera það. Í einhverjum tilvikum gera þeir það ekki vegna þess að þeir telja ekki að hagsmunum barnsins sé best borgið með því, m.a. í ofbeldismálum. En heimildin á að vera fyrir hendi.

Ég legg mikið upp úr því að sátt sé um öll þessi mál og á þeirri forsendu sem kemur fram í nefndarálitinu, að umsagnaraðilar tóku enga afstöðu til þessarar leiðar, tel ég kannski ekki að það sé skynsamlegast á þessari stundu að samþykkja breytingartillöguna um að dómarar hafi þessa heimild. En ég tel svo sannarlega að það sé næsta skrefið í þessu máli, að opnað sé fyrir það.

Annað sem ég vildi hafa orð á, frú forseti, er sáttaleiðin. Í breytingartillögu sem allsherjarnefndin leggur fram hnykkir hún einmitt á leiðbeiningarskyldu sýslumanns þegar um sameiginlega forsjá er að ræða. Það kom glöggt fram í meðförum nefndarinnar að fæstir vita hvert inntak sameiginlegrar forsjár er. Í raun og sannleika held ég að það sé þannig að fæstir viti í rauninni hvert inntak forsjár er þó að hún sé skipt. Það er lítil grein um þetta í barnalögunum sem tíundar hvað felst í forsjánni. Ég veit ekki til að foreldrum sé almennt kynnt hvað það þýði að fara með forsjá barns. Þaðan af síður hefur það verið kynnt hvað það þýðir að fara með sameiginlega forsjá.

Ég tel það mjög til bóta ef ráðuneytið ætlar núna að ráðast í útgáfu rits sem fjallar um inntak forsjár og sameiginlegrar forsjár. Ég tel hana líka mjög til bóta þessa breytingartillögu sem hnykkir á skyldu sýslumanns til að leiðbeina um það hvað felst í sameiginlegu forsjánni. Það tel ég vera rétt.

En það sem kom gleggst fram í vinnu nefndarinnar var þýðing sáttameðferðarinnar. Það sýndi sig að tiltekinn dómari hafði getað náð sáttum í allt að 90% forsjármála sem stefnt var inn við einn dómstól. Ef hægt er að komast hjá því að foreldrar deili fyrir dómi um forsjá barns er það aldrei nema af hinu góða. Ég vil leggja megináherslu á það sem segir í þessu nefndaráliti um gildi þess að stórefla sáttameðferð í forsjármálum. Það held ég að gagnist hagsmunum barna í þessu landi meira en flest annað sem fjallað er um í nefndarálitinu.

En frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vil aðeins varðandi dómstólaleiðina ítreka — af því að það fór af stað einhver misskilningur um að Svíar ætluðu að hverfa frá þessari leið sem reyndist ekki rétt þegar glöggt var skoðað. Raunveruleikinn er sá að í bæði í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er heimilt að dæma sameiginlega forsjá. Það sem er rétt er að Danir eru líka að hugleiða það í ákveðnu nefndarstarfi að taka það upp í sína löggjöf.

En mergurinn málsins í þessu öllu er sá að hvort sem það eru foreldrar barns, sýslumaður, dómarar, hverjir sem koma að þessum málum að þá ber þeim öllum að fylgja meginreglum barnaréttarins sem er að setja hagsmuni barnsins í fyrirrúm.