132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

328. mál
[14:56]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

Með frumvarpinu er lagt til að sýslumenn geti að undangengnum dómsúrskurði aflað sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum með leit hjá þeim sem grunaðir eru um brotin.

Á fundum nefndarinnar kom fram að tilefni frumvarpsins væri þjóðréttarleg skuldbinding vegna aðildar Íslands að samningi um Alþjóðaviðskiptastofnunina og 1. viðauki C með samningnum sem nefndur hefur verið TRIPS-samningurinn. Markmiðið með samningnum er að auka vernd hugverkaréttinda á heimsvísu og í því skyni eru gerðar ákveðnar kröfur til löggjafar aðildarríkjanna.

Kom fram í störfum nefndarinnar að þau ákvæði TRIPS-samningsins sem einkum snerta öflun sönnunargagna vegna brota gegn hugverkaréttindum eru 41. og 50. gr. og samkvæmt þeim skulu aðildarríkin sjá til þess að fyrir hendi séu skilvirk úrræði sem unnt er að grípa til í því skyni að koma í veg fyrir og hindra brot gegn hugverkaréttindum, tryggja réttláta málsmeðferð og sjá til þess að dómstólar hafi vald til að fyrirskipa tafarlausar og skilvirkar ráðstafanir til bráðabirgða til að koma í veg fyrir brot á hugverkarétti.

Fram kom á fundum nefndarinnar að til þessa hefðu ekki verið nægilega virk úrræði fyrir rétthafa hugverkaréttinda til að bregðast við brotum og afla sönnunargagna um þau til að verja hagsmuni sína. Þá væri þörf á úrræðum á einkaréttarlegum grunni til þess að bregðast við þar sem lögreglu væri varla kleift að bregðast nægilega fljótt við kærum. Þess vegna eru þau úrræði sem hér er gengið út frá á einkaréttarlegum grunni. Markmiðið er að stöðva ákveðna starfsemi og m.a. að tryggja að rétthafi að hugverkarétti geti tryggt sönnun gegn ætluðum brotum á hugverkarétti.

Það verður að segjast eins og er, að hér eru færð í lög nokkuð víðtæk úrræði til að afla sönnunargagna. Það er því ekki að ástæðulausu að sú spurning vaknaði í störfum nefndarinnar hvort með frumvarpinu væri gengið of nærri friðhelgi einkalífs, þeirri friðhelgi sem almennt þarf að tryggja eða hagsmunum gerðarþola. Eins og segir í nefndarálitinu voru þessi atriði tekin sérstaklega til skoðunar. Ég ætla að leyfa mér að fara lauslega yfir þau atriði í frumvarpinu sem ætlað er að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum, hvernig úrræðin eru tempruð til þess að ekki sé gengið lengra en þörf krefur.

Samkvæmt frumvarpinu þarf gerðarbeiðandi í fyrsta lagi að gera sennilegt fyrir dómi að brot hafi verið framið.

Í öðru lagi á úrræði frumvarpsins ekki við ef mál beinist að einstaklingi og um er að ræða minni háttar brot sem ekki eru liður í atvinnustarfsemi. Með því eru einstaklingar og öll minni háttar tilvik undanskilin.

Í þriðja lagi er það sýslumaður sem annast leitina og gerðarbeiðandi er einungis viðstaddur ef það er nauðsynlegt til að veita upplýsingar að því marki sem þarf til að gerðin fari fram. Einnig er áskilið að meðalhófs skuli gætt og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er með hliðsjón af þeim ætluðu brotum sem afla á sönnunar um.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að gerðarbeiðandi fái ekki nein gögn í hendur fyrr en endurupptöku- og kæruleið hefur verið tæmd.

Loks er gerðarbeiðanda gert skylt að leggja fram tryggingu fyrir kostnaði við meðferð málsins og fyrir greiðslu skaðabóta sem gerðarþoli kynni að öðlast rétt til og er bótaverndin hlutlæg.

Að öllu þessu virtu, eins og segir í nefndarálitinu, telur meiri hlutinn ljóst að með frumvarpinu sé ekki gengið nær stjórnarskrárvernduðum rétti gerðarþola til friðhelgi einkalífs en nauðsynlegt er vegna eignarréttinda annarra sem einnig eru vernduð í stjórnarskrá og enn fremur að hagsmunir gerðarþola séu tryggðir með rétti til greiðslu skaðabóta.

Loks ber að nefna að hætt væri við því að frekari skilyrði fyrir öflun sönnunargagna en fram koma í frumvarpinu mundu stofna markmiði frumvarpsins í hættu með því að úrræðið yrði of þunglamalegt í framkvæmd.

Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að úrræði frumvarpsins um réttindagæslu á sviði hugverkaréttinda þyrftu einnig að ná til innheimtu og skila á fylgiréttargjöldum til myndhöfunda og erfingja þeirra. Nefndin kemst að því að í sjálfu sér sé ekki nein þjóðréttarleg skuldbinding til að láta frumvarp þetta jafnframt taka til slíkrar breytingar. Þau tilvik séu einnig í nokkru eðlisólík þeim sem hér er um að fjalla. Þau mál sem einkum reynir á með frumvarpinu eru þess eðlis að auðvelt er að eyða og skjóta undan sönnunargögnum. Að því leyti eru málin ekki að öllu leyti sambærileg. Eins er það álit meiri hlutans að væntanlega sé unnt, með öðrum og vægari úrræðum, að koma til móts við þörfina sem virðist vera fyrir aukna réttindagæslu vegna fylgiréttargjaldsins.

Með þessum athugasemdum fylgi ég eftir áliti meiri hluta allsherjarnefndar sem leggur til að frumvarpið verði samþykkt.