132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

328. mál
[15:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp þetta sem er finna á þingskjali 1220 og er frá hv. þm. Atla Gíslasyni. Hún varðar fylgiréttargjaldið. Eins og hv. formaður allsherjarnefndar vék að í máli sínu var talsverð umræða í nefndinni um hvort úrræði frumvarpsins um réttindagæslu á sviði hugverkaréttinda ættu ekki einnig að ná til innheimtu og skila á fylgiréttargjöldum til myndhöfunda og erfingja þeirra.

Breytingartillaga Atla Gíslasonar sem ég mæli fyrir og geri hér að minni gengur út á að a-liður 1. gr. breytist til þess að úrræði frumvarpsins nái líka yfir innheimtuskil á fylgiréttargjöldum. Hún muni þá hljóða svo:

„Höfundarétti og skyldum réttindum skv. 3. gr., 4. gr., 3. mgr. 11. gr., 25. gr. b, 45. gr., 46. gr. og 48.–52. gr. höfundalaga og 23. gr. a laga um verslunaratvinnu.“

Þessi umræða fór af stað í nefndinni vegna umsagnar stjórnar Myndstefs um frumvarpið en stjórn Myndstefs lýsti ánægju með frumvarpið í heild sinni og taldi það fela í sér verulegar réttarbætur til höfunda en gerði hins vegar athugasemdir við það að úrræðið til réttinda á gæslu á sviði hugverkaréttar næði ekki til innheimtu og skila á fylgiréttargjöldum. Stjórnin taldi nauðsynlegt að gera þær breytingar sem þessi tillaga lýtur að.

Fram hefur komið að hér á landi hefur verið misbrestur á innheimtu fylgiréttargjalda, bæði hvað varðar listaverkasölu á frjálsum uppboðum og í listmunaverslunum. Myndstef hefur með vísan til almennra hegningarlaga og til höfundalaga reynt að fá embætti ríkislögreglustjóra til að rannsaka meint brot og eftir atvikum að gefa út ákæru á hendur þeim sem sannir verða að lögbrotum í þessa veru. Embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara hafa ítrekað hafnað beiðnum Myndstefs. Hér er um alvarleg brot að ræða sem hafa staðið lengi og varða háar fjárhæðir. Eðli málsins samkvæmt er mjög erfitt og nánast ómögulegt að sanna þessi brot nema með rannsókn lögreglu á bókhaldi viðkomandi aðila og tengdum gögnum. Ber því nauðsyn til að lögfesta breytingu samkvæmt tillögu þessari. Það er að mati okkar sem stöndum að breytingartillögunni að til lítils sé að lögfesta ákvæði um fylgiréttargjöld í höfundaréttarlöggjöf ef ekki er unnt að innheimta þau og bregðast við brotum á lögunum með viðeigandi hætti. Þess ber að geta í lokin, frú forseti, að Danir hafa lögfest sambærilegt ákvæði, þ.e. heimila sömu úrræði og þetta frumvarp gerir ráð fyrir þegar um er að ræða réttindagæslu á sviði fylgiréttargjaldsins.

Að öðru leyti vil ég segja um málið að þetta tengist TRIPS-samningnum svokallaða, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson gat um í máli sínu, en varðar ekki lögleiðingu TRIPS-samningsins sjálfs eða innleiðingu hans í íslenskan rétt. Ég er þeirrar skoðunar að TRIPS-samningurinn sé um margt afar varhugaverður samningur og ákveðnar lagabreytingar sem gerðar hafa verið smám saman hafa verið smátt og smátt að innleiða þennan samning í íslenskan rétt. Ráðuneyti dómsmála tjáði nefndinni við yfirferð þessa máls að segja megi að samningurinn sé að fullu leiddur í íslensk lög nú þegar. Þau ákvæði sem hér er verið að lögleiða lúta eingöngu að þessu þrönga sviði, þ.e. öflun sönnunargagnanna vegna ætlaðra brota á sviði hugverkaréttinda.

Hvað varðar TRIPS-samninginn almennt langar mig að segja, til að þau sjónarmið komi fram við umræðuna, að þar tel ég varhugaverðan samning á ferðinni. Ég tel rétt að við séum á verði gagnvart því hvernig beiting ákvæða hans þróast því ég sé ekki betur en að öflug samtök vítt og breitt um heiminn séu farin að gefa því sérstakan gaum og halda fram að á grundvelli þess samnings sé verið að fara offari að ýmsu leyti þegar stórfyrirtæki vegna viðskiptahagsmuna eru farin að afla sér höfundaréttar á sviði sem er í besta falli umdeilanlegt hvort hægt sé út frá siðferðislegum sjónarmiðum hreinlega að krefjast höfundaréttar á. Á ég við ákveðna hluti sem hreinlega geta gerst úti í náttúrunni. Ég er að tala um yrkisrétt þar sem hægt er samkvæmt samningnum að öðlast höfundarétt á hlutum eða fyrirbærum sem eiga sér stað nánast úti í náttúrunni og gera fólki sem stundar ræktun, bændum oft og tíðum, erfitt fyrir til að nýta sér yrki til áframhaldandi ræktunar. Þetta tengist erfðabreytingum og öðru slíku sem eru líka afar umdeild mál í heiminum í dag. Ég tel að fólk þurfi að vera á verði varðandi TRIPS-samninginn almennt og það hvernig ákvæðum hans er beitt í íslenskum lögum.

En meginatriði málsins var að mæla fyrir þeirri breytingartillögu sem finna má á þingskjali 1220 og tel ég nauðsynlegt að þingheimur ígrundi það alvarlega þegar atkvæði eru greidd hvort ekki sé rétt að staldra við.