132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[15:34]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við 1. umr. um málið lýsti ég afdráttarlausri skoðun minni á þessu máli, að það væri einhver mesta forræðishyggja sem sögur fara af í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið. Markmiðunum um að allir geti alltaf, þ.e. þeir sem það kjósa, verið í reyklausu umhverfi, alltaf og alls staðar, er hægt að ná með mildari leiðum en því fortakslausa forræðishyggjubanni sem hér er lagt til.

Meginmarkmiðið er skýrt. Um það held ég að sé almenn samstaða, að vernda þá sem eru á skemmti- og veitingastöðum fyrir tóbaksreyk og vernda þá sem vinna á skemmti- og veitingastöðum fyrir tóbaksreyk. Það á enginn að þurfa að anda að sér tóbaksreyk sem það ekki vill. Ekki efast ég um það eitt augnablik að reykingar, beinar og óbeinar, séu stórhættulegar og hafi valdið dauða fjölda fólks. Um það blandast mér ekki hugur, ekki frekar en að áfengi veldur mörgum hundruðum dauðsfalla hér á landi á hverju ári með einum eða öðrum hætti. Hið sama gildir um neyslu á óhollum mat, fitandi mat. Margir éta sig í hel á hverju einasta ári. Hvenær ætlar Alþingi að grípa fram fyrir hendurnar á þessu fólki? Þessi forræðishyggja er óþolandi. Við hana sætti ég mig að sjálfsögðu ekki. Þess vegna tala ég gegn þessu máli.

Að sjálfsögðu á að vernda alla þá sem vilja vera í reyklausu umhverfi fyrir tóbaksreyk. En til eru mildari leiðir til þess eins og við munum tala um í umræðunni í dag. Við flytjum breytingartillögu um það, fjórir þingmenn. Hv. þm. Birgir Ármannsson, fyrsti flutningsmaður hennar, gerir grein fyrir þeirri tillögu á eftir. En hún gengur út á að heimilt verði að leyfa reykingar í sérstökum herbergjum eða afmörkuðum svæðum. Ég vil spyrja flutningsmann nefndarinnar: Af hverju var ekki farin mildari leið til að ná fram sömu markmiðum?