132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[15:37]
Hlusta

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spyr af hverju mildari leiðin hafi ekki verið farin, þar sem hægt hefði verið að ná sömu markmiðum með henni.

Um það er ágreiningurinn, þ.e. hvort hægt sé að ná sömu markmiðum með því að fara mildari leiðina. Í því samhengi var m.a. rætt um að leyfa afmörkuð sérreykingarherbergi. Það var bara enginn sem studdi þá leið, ekki Samtök ferðaþjónustunnar eða fulltrúar starfsmanna á fundum með félagsmálanefndinni. Hvatinn til að skoða þá leið nánar var ekki fyrir hendi.

Í 1. umr. um þetta mál vakti ég máls á að Svíar hefðu farið þessa leið og eftir því sem ég vissi best hefði hún gefið góða raun þar. Ég sé enga ástæðu til að við förum þá leið. Svíar eru ekki eina þjóðin sem hefur farið þá leið. Þær eru fleiri. En það var bara enginn stuðningur við það í störfum nefndarinnar og enginn hvati til að skoða hana nánar.

Á hinn bóginn komu fram þau sjónarmið að jafnvel þótt við leyfðum þetta ættu vinnuverndarsjónarmiðin við vegna þess að þeir sem lentu í að þrífa þessa staði, þótt þar væru engar veitingar innan dyra, yrðu fyrir áhrifum óbeinna reykinga sem gætu verið heilsuspillandi fyrir þá.

Þetta er ástæðan fyrir því að heilbrigðisnefnd leggur þetta ekki til. Ég held að það sé ekki ofmælt að þeir sem hefðu haft áhuga á að skoða þessa leið nánar í heilbrigðisnefnd, þverpólitískri heilbrigðisnefnd, voru mun færri en þeir þingmenn sem vildu fortakslausa bannið, eins og það liggur hér fyrir. Það var ekki flokkspólitísk afstaða.