132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[15:43]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma upp í andsvar til að fagna því að með samþykkt þessa frumvarps muni starfsmenn á veitinga- og skemmtistöðum búa við sömu vinnuvernd og aðrir. Það eru ekki bara þeir sem bera fram veitingar heldur líka þeir sem þrífa þessa staði. Það hefur komið fram í andsvörum að það var ekki síður litið til þeirra. Það er oft fólk sem er viðkvæmt fyrir óbeinum tóbaksreykingum. Það kom einmitt fram að oft starfar ungt fólk, ungar stúlkur og jafnvel barnshafandi, við að þrífa húsakynni þar sem hefur verið reykt. Þá geta ófædd börn þeirra orðið fyrir skaða um leið.

Ég fagna því að þetta skuli verða að lögum. Sömuleiðis erum við að lögfesta atriði í takt við niðurstöðu dóms Hæstaréttar þar sem tekið er á undanþágum um sýnileika tóbaks í sérverslunum fyrir tóbak. Reyndar er ekki nema ein slík sérverslun á Íslandi þannig að við erum að gera þá breytingu um leið.

Það er algjör misskilningur hjá þeim sem hafa verið að tala um að hér sé um forræðishyggju að ræða. Það er ekki meiri forræðishyggja í þessu en að banna fólki að aka yfir á rauðu ljósi, sem getur líka verið skaðlegt, eða hvaða aðrar reglur sem við setjum. Við erum með lög um vinnuvernd við öll störf nema fyrir starfsfólk í veitingahúsaþjónustu. Það er fullkomlega eðlilegt og fagnaðarefni að það starfsfólk búi við (Forseti hringir.) sömu vinnuvernd og aðrir að þessum lögum samþykktum.