132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:04]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa ánægju minni með að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skuli hafa íhugað þetta mál og skoðað það með jákvæðum huga í félagsmálanefnd að taka breytingu af þessu tagi til greina.

Í fyrsta lagi, ef ég svara þeim þremur atriðum sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, held ég að mín tillaga og þriggja annarra þingmanna byggi á því að ná fram ákveðinni málamiðlun. Það er ljóst að staða þeirra starfsmanna sem, eins og ég nefndi í ræðu minni, fara einu sinni eða tvisvar á sólarhring inn í svona rými til að þrífa þau sé allt önnur en þeirra sem klukkustundum saman þurfa að standa í reykjarmekki. Það er allt önnur staða og ekki hægt að líkja saman aðstöðu þeirra eða áhrifum af tóbaksreyk með neinum hætti.

Við gerum ráð fyrir því að þessi rými séu að auki reykræst, að þar sé boðið upp á fullnægjandi lofthreinsibúnað sem gerir það líka að verkum að þeir starfsmenn sem einu sinni, tvisvar á sólarhring eða hve oft sem það er þurfa þar inn til að þrífa verða fyrir óverulegum áhrifum af þeim reykingum sem þar hafa átt sér stað. Þetta eru tóbaksreykingar og menn geta orðið fyrir áhrifum af þeim. Þetta er hins vegar ekki geislavirkur úrgangur sem menn skaðast af bara við að snerta hann einu sinni. Það er bara ekki þannig.

Varðandi samkeppnisstöðuna vil ég bara nefna að samkeppnisstaða veitingastaða er mismunandi að mörgu leyti. Það er ekki verið að neyða neinn til eins eða neins. Menn hafa mismunandi aðstæður til þess að bjóða upp á mismunandi þjónustu á sínum stöðum og þetta er bara einn þáttur af því.