132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:06]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður gera of lítið úr því hvað lagt er á það starfsfólk sem þarf að fara inn í þessi herbergi og þrífa þau. Þar er kannski um lítil herbergi að ræða þar sem tugir reykingafólks hafa farið í gegn á nokkrum klukkutímum. Sá sem fer inn í slíkt herbergi, þótt ekki sé nema í skamma stund, lyktar eins og öskubakki þegar hann kemur út.

En varðandi samkeppnisstöðuna þá kemur það mér mjög á óvart ef hv. þingmaður hefur ekki meiri áhyggjur af samkeppnisstöðunni en hv. þingmaður lætur í ljós. Fjöldi veitingastaða sem hefur ekki aðstöðu til þess að koma upp reykaðstöðu. Það yrði auðvitað til þess að reykingafólk mundi sækja á aðra staði, kannski næsta stað við hliðina af því að hann byði upp á slíkt reykherbergi. Með þessu er því verið að skekkja samkeppnisstöðu veitingastaða með óeðlilegum hætti.

Ég spurði ítrekað eftir því í félagsmálanefnd hvort ekki væri t.d. hægt að hafa þessa heimild fyrir þá sem vildu það. Því var neitað að veitingamenn mundu óska eftir því að slík heimild væri til staðar, að þetta yrði ákveðið sett inn í lögin. Að öllu þessu virtu tel ég ekki skynsamlegt að styðja slíka breytingartillögu. Ég spyr hvað hv. þingmaður sé að fara og þeir sem flytja tillöguna með honum þegar talað er um sérstök herbergi eða á afmörkuð svæði á veitinga- og skemmtistöðum. Hvað þýðir „afmörkuð svæði“? Er það bara eitthvert horn, eins og er núna almennt á veitingastöðum, eða hvað er hv. þingmaður að tala um þegar hann talar um afmörkuð svæði?

Þótt ég hafi, eins og ég sagði áðan, íhugað mjög að skoða réttindi reykingafólks og finna einhverja leið til þess að halda einhverjum stað opnum sem reykingafólk (Forseti hringir.) gætti nýtt þegar það fer á veitingastaði held ég, að öllu virtu, að þetta sé ekki skynsamleg leið.