132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:11]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vék að máli mínu áðan þar sem ég talaði um vinnuvernd þeirra sem þyrftu að þrífa veitinga- og skemmtistaði og jafnvel svonefnd reykherbergi. Ég furða mig á því að hv. þingmaður geri lítið úr vinnuvernd þeirra sem þrífa þessi rými.

Það kom fram í umræðum um þetta frumvarp, þar sem hv. þingmaður var ásamt mér, hjá ungliðahreyfingu flokks hans, þar sem Kristinn Tómasson, læknir hjá Vinnueftirlitinu, ræddi um þetta við okkur, að rykið sem yrði eftir þar sem reykt hefði verið væri mjög heilsuspillandi og oft væru ungar konur í þessu hreingerningarhlutverki, jafnvel barnshafandi, jafnvel án þess að vita það, og þetta gæti skaðað fóstur, bara það ryk sem verður eftir reykingar þar sem er verið að þrífa.

Það hefur einnig komið fram í umræðu um þetta frumvarp og þetta mál, hvort það ætti að leyfa reykingar eða ekki, að læknar sem hafa kynnt sér rannsóknir á þessu hafa bent á að það geti verið heilsuspillandi, jafnvel fyrir ungbörn, að hvíla upp við flík sem hefur verið lengi inni í reykingamettuðu lofti. Þetta er því vissulega heilsuspillandi. A.m.k. hafa læknar sem hafa verið að skoða þetta sannfært mig um það þótt ég sé ekki sérfræðingur í því. Ég tel fulla ástæðu til þess að huga að vinnuvernd allra, ekki bara þeirra sem eru í reykmettuðu lofti heldur líka þeirra sem þurfa að búa við að þrífa skítinn eftir reykingamennina þótt þeir séu búnir að ræsta út.