132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:31]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og það lýtur að tvennu. Í fyrsta lagi er ég á móti málinu sjálfu, frú forseti. Þannig að ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara að því leyti og þá kann einhver að spyrja af hverju í ósköpunum ég skrifi undir nefndarálitið yfirleitt. Það er vegna þess að nefndin brást við tilmælum Hæstaréttar og er að breyta lögum í kjölfar þess hæstaréttardóms. Það styð ég eindregið.

Ég styð einnig breytingartillögu sem fjórir hv. þingmenn flytja á þskj. 1336 og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson flutti alveg ágæta ræðu um áðan. Ég tek undir hvert orð í þeirri ræðu. Ég er á móti þeirri miklu forræðishyggju sem hér ríður húsum. Auk þess er ég með breytingartillögu sjálfur.

Hún varðar 7. gr. í núgildandi lögum, nr. 6/2002, þar sem segir að hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum séu bannaðar hér á landi. Þar segir enn fremur í 3. tölulið sömu greinar að með auglýsingum sé átt við hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra.

Þetta ákvæði er alveg með ólíkindum, frú forseti.

Ef einhver fjölmiðlamaður skyldi nú senda út það sem ég segi hér á eftir þá ætla ég að vara hann við að ég er að fara að brjóta lög. Ég ætla nefnilega að segja að ég hafi aldrei reykt Camel. Þetta er lögbrot. Ég ætla að segja að það sé langt síðan ég hafi keypt Chesterfield. Annað lögbrot. Ég ætla að segja að nú er hann Jón gamli dáinn, ég segi það af því að ég er að skrifa minningargrein um hann, en eldri bróðir hans Gunnar sem reykti alltaf Raleigh, lifir góðu lífi. (Gripið fram í.) Eða systir hans sem reykti lifir enn, háöldruð. Þetta má ég ekki segja heldur.

Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum frú forseti, svona umræða. Svona lagatúlkun. Þetta minnir á trúboð. Þetta minnir á trúboð bókstafstrúarmanna. Þetta eru einstrengingslegar skoðanir. Þetta er forsjárhyggja og þetta er skoðanakúgun. Þetta er rétttrúnaður. Ekkert annað. Heilbrigð umræða og skynsemi er látin veg allrar veraldar.

Ég skora á hv. þingmenn að styðja breytingartillögu mína þannig að það sem ég sagði hér áðan sé ekki lengur lögbrot og menn geti t.d. sagt í grein í Morgunblaðinu eða í einhverjum öðrum fjölmiðli að einhver hafi reykt Raleigh eða að einhver hafi reykt þetta eða hitt. Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum. Fyrir utan það að þegar við bönnum auglýsingar þá styrkjum við náttúrlega samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem eru á markaði. Það getur enginn nýr komið inn og þannig styrkjum þá sem eru á markaðnum. Þeir þurfa ekkert að hafa fyrir því. Þeir þurfa ekkert að auglýsa. Fólkið veit ekki neitt um neitt annað til að kaupa en þær sígarettur eða tóbak sem þeir hafa selt. Þannig að þetta er til hagsbóta fyrir tóbaksiðnaðarinn.

Umræðan í nefndinni var alveg með ólíkindum. Það kom fram að það eru 16–20% meiri líkur að deyja úr vissum sjúkdómum ef menn eru svokallaðir meðreykingarmenn, ef þeir anda að sér reyk frá öðrum. Ef yfirleitt er hægt að merkja einhvern marktækan mun eða einhverja aukningu á dánarlíkum þá er það með stuðlinum 1,16 til 1,20.

Hins vegar ef menn reykja sjálfir þá er það með stuðli 20 falt í vissum sjúkdómum. Þannig að það er varla hægt að segja að þetta sé sambærilegt, að vera meðreykjandi eða reykja sjálfur. Langt í frá. Það eru bara sárafáar kannanir sem sýna yfirleitt marktækan mun á eða sanna yfirleitt að skaðlegt sé að reykja eða anda að sér lofti sem aðrir hafa reykt í.

Umræðan í nefndinni gekk út á að þetta væri eins og verið væri að fjalla um blásýru. Ég fagna bara hverjum degi sem ég lifi. Þegar ég var unglingur og barn sat ég iðulega í rútum þar sem mikið var reykt. Ég ætti að vera löngu dauður miðað við umræðuna í nefndinni. Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum, trúboðið er svoleiðis endalaust að maður bara stendur á öndinni yfir þessu. Í nefndinni var verið að tala um einhverja veggi upp í hálfa hæð, einn metra á hæð og ég veit ekki hvað og hvað. Þessi umræða var fyrir neðan allar hellur.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra en ég segi að það var bíó að fylgjast með umræðunni í hv. heilbrigðis- og trygginganefnd og mér þykir mjög miður að ég hef ekki hæfileika til að semja gott gamanleikrit, því nóg efni var til þess.