132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[17:05]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hlýtur að átta sig á því að reginmunur er á því hvort mörkin milli reykingasvæða og reyklausra svæða á veitingastöðum eru einungis táknræn eða með engu móti aðgreind öðru en einhverjum merkimiðum á borðum eða því hvort veggur er á milli eða gler er á milli eða hvort reykingasvæðið er í sérstöku herbergi, hugsanlega jafnvel á annarri hæð en annað veitingarými. Mér finnst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gersamlega loka augunum fyrir því að með þessu er verið að stíga verulegt skref í þá átt sem hann vill, verið er að stíga verulegt skref til þess að greina þarna á milli. Aðgreiningin verður fullkomin, það yrði ekki heimilt samkvæmt þessu ákvæði að hafa fyrirkomulagið með þeim hætti sem er í dag, að reykingar og reyklaust svæði yrði í sama rými án þess að einhver aðgreining með veggjum, gleri eða einhverjum sambærilegum hætti væri á milli.

Af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er sannfærður og einlægur í baráttu sinni gegn reykingum og andstöðu sinni við reykingar þá sér hann einfaldlega ekki eða vill ekki sjá að sú leið sem við erum að leggja til felur í sér verulega bót frá núverandi fyrirkomulagi og verulegt skref í þá átt að sætta sjónarmið í þessum efnum, verulegt skref í þá átt að tryggja aðstöðu fyrir reykingamenn án þess að gengið sé á rétt hinna því að það er auðvitað markmiðið með þessu öllu.