132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[17:07]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stundum eru engar málamiðlanir til, það verður bara annaðhvort að gera hlutina eða gera þá ekki. Ég held að við séum nákvæmlega með svoleiðis mál hér í höndunum. Hv. þingmaður var nú kominn út í heilmikla verkfræði og útfærslur af því tagi. Ég er búinn að segja það sem ég tel að mundi verða í sambandi við framkvæmdina á þessu ef menn færu þessa leið. Mér finnst þetta vera einhver hálfvelgja sem á ekkert við í málinu.

Hvernig í ósköpunum ætlar svo hv. þm. Birgir Ármannsson að tryggja þá framkvæmd sem hann talar svona fjálglega og fallega um, glerveggina og lofstreymið og allt þetta? Ætlar hv. þingmaður að stofna glerveggja- og loftstreymiseftirlit ríkisins til að fara um og athuga að þessi kúnstuga framkvæmd hans eða útfærsla haldi? Það sjá það allir menn að hitt hefur svo margfalda og ótvíræða kosti í framkvæmd að hafa þetta hreinar línur að það hálfa væri nóg, þannig að þetta eiginlega bara afgreiðir sig sjálft.