132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

háskólar.

433. mál
[17:17]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp um háskóla er mikið og stórt nafn yfir ákaflega lítið mál í sjálfu sér. Það voru mikil vonbrigði þegar þetta mál kom frá hæstv. menntamálaráðherra hve innihaldsrýrt og dauflegt það var. Þó að það sem út úr nefndinni kemur sé ágætt fyrir sinn hatt þá tekur málið að sjálfsögðu alls ekki á því sem mestu máli skiptir. Ekki breytist því vetur hinna miklu vonbrigða hæstv. menntamálaráðherra með þessu máli nokkurn skapaðan hlut. Það kemur lítið í sjálfu sér út úr því. Þó það sé ágætis viðleitni til að bæta umhverfi háskólanna þá vantar fjölda margt þarna inn til að málið standi undir nafni sem endurskoðun á heildarlögum um háskóla. Því fer svo víðs fjarri að það komi nokkurs staðar nálægt því að standa undir því nafni.

Ég ætla nú að mæla fyrir áliti minni hluta menntamálanefndar sem við flytjum hv. þingmenn Einar Már Sigurðarson, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason.

Megintilgangur frumvarps um háskóla er samkvæmt greinargerð með því að setja almennan lagaramma um starfsemi háskóla, segja fyrir um gæðaeftirlit með námi í háskólum, samræmingu prófgráða og gagnkvæma viðurkenningu náms í því augnamiði að auka samstarf háskóla innbyrðis. Minni hluti menntamálanefndar er fylgjandi því að sérstaklega sé tekið á gæðamálum í háskólum þannig að innra og ytra gæðaeftirlit verði sem skilvirkast og best, en á þetta hefur mikið skort í íslensku háskólastarfi eins og allir hafa viðurkennt, sérstaklega eftir að háskólunum fjölgaði og umhverfi þeirra breyttist. Í því sambandi ber að líta til Bologna-ferlisins, eins og frumvarpið gerir, og Lissabon-samningsins um viðurkenningu á menntun og hæfi að því er varðar háskólamenntun í Evrópu. Minni hlutinn telur að ákvæði frumvarpsins séu til þess fallin að bæta fyrirkomulag þess gæðaeftirlits sem er til staðar samkvæmt lögum, enda full þörf á og mikil. Minni hlutinn gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir við nokkra þætti frumvarpsins og mun ég gera sérstaklega grein fyrir þeim á eftir. Þær helstu varða, og eru það grundvallaratriði, akademískt frelsi háskóla, skipan háskólaráða, jafnræði milli háskólanna óháð rekstrarformi þeirra og aðgengi fatlaðra nemenda að háskólum landsins. Tilraunir minni hlutans til að ná fram breytingum á málinu við umfjöllun nefndarinnar skiluðu ekki árangri og því flytur minni hlutinn sérstakar breytingartillögur við 2. umræðu um málið sem lúta að öllum þessum þáttum sem ég taldi upp áðan. Grundvallaratriði til að ná vitrænni og jákvæðri framtíðarsátt um starfsemi háskólanna er til dæmis að jafna stöðu þeirra óháð rekstrarformi af því að í sjálfu sér er ekki mikill ágreiningur um að fjölbreytt rekstrarform sé ágætt og gott og jafnvel nauðsynlegt í starfsemi háskólanna þar sem sjálfseignarstofnunarformið hentar mjög vel þeim sjálfstætt starfandi eða einkareknu en aðrir eru opinberar stofnanir. En eins og staðan er í dag er þeim mismunað nokkuð gróflega hvað varðar innheimtu skólagjalda þar sem hinir einkareknu eða sjálfseignarstofnanirnar eða einkahlutafélögin, eins og nú er uppi líka hvað varðar Háskólann í Reykjavík, fá sama kennsluframlag og hinir opinberu auk heimildar til innheimtu skólagjalda sem er langtum hærri en hinir opinberu hafa. Aðstaða þeirra er því ójöfn að því leyti og það þarf að leita leiða til að jafna og ná sátt á milli skólanna hvað varðar framlög frá hinu opinbera og aftur innheimtu skólagjalda. Þetta er óleyst mál sem hæstv. menntamálaráðherra hafði uppi mikil gífuryrði um fyrir tveimur árum síðan þegar hún tók við lyklavöldum í menntamálaráðuneytinu. Hún sagðist mundu byrja á að veita opinberu háskólunum heimild til innheimtu skólagjalda, það væri nú minnsta málið, það væri bara smámál sem yrði leyst í janúar og febrúar. Síðan þegar leið á hina pólitísku umræðu og orrahríð um skólagjöld almennt sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar og margir aðrir höfum margoft tekið á hinu háa Alþingi á liðnum missirum þá varð lítið úr því. Hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki lagt til, eins og hún boðaði á sínum tíma, að opinberu skólarnir fengju heimild til innheimtu hærri skólagjalda en þeir hafa nú. Ójafnræðið ríkir því enn. Það er hvorki búið að bæta opinberu skólunum þetta með hærri kennsluframlögum né heimild til skólagjalda. Enn síður hefur verið tekin hér heildstæð umræða um kosti og galla skólagjalda og hvernig þessum málum skuli háttað til framtíðar, hvort hugsanlega sé réttlætanlegt að veita skólunum heimild til skólagjalda ef á móti kæmu t.d. námslán og styrkir sem yrðu tengdir við tekjur og efni námsmannsins eftir nám þannig að þeir sem færu á lægri eða millitekjur mundu aldrei endurgreiða lánin, þau féllu niður sem styrkir, en þeir sem hefðu hærri og hæstu tekjurnar endurgreiddu sín lán að fullu eða að miklu leyti, þ.e. leiðin sem Bretarnir fóru til dæmis. Hvernig sem við lendum málinu einhvern tímann þá er alla vega það sorglegasta við þennan vonbrigðavetur hæstv. menntamálaráðherra að aldrei kom málið fram sem laut að innheimtu skólagjalda í opinberum skólum og því er ekki búið að jafna leikinn milli háskólanna óháð rekstrarformi eins og við leggjum til í breytingartillögum hér. En áfram að áliti minni hluta menntamálanefndar.

Akademískt frelsi er hornsteinn háskólastarfs og liggur því til grundvallar. Vísindasamfélagið hvílir á hugmyndum um gagnrýna hugsun og vinnubrögð. Það er því mikilvægt að tryggja sem best akademískt frelsi til rannsókna, kennslu, tjáningar og birtingar efnis. Án þess er háskólastarfi ógnað enda ekki um að ræða háskólastarfsemi nema að nafninu til ef gengið er á akademískt frelsi háskólafólks. Hver einstaklingur innan háskólans þarf að geta leitað þekkingar og tjáð viðhorf sín í smáu sem stóru án þess að starfsöryggi hans sé ógnað og hver háskóli þarf að vera öruggur um að honum verði hvorki gefin fyrirmæli af hálfu stjórnvalda né hagsmunaaðila. Þó að þessa sé getið að nokkru leyti í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins telur minni hlutinn að kveða þurfi skýrt á um það í lögunum og leggur því til breytingu við 2. gr., þar sem kveðið verði á um sameiginlega skyldu stjórnvalda og háskóla til að standa vörð um akademískt frelsi háskólanna.

Þetta er algjört grundvallaratriði til að við getum stutt þetta mál og þessa grein.

Rannsóknafrelsi háskóla og sjálfstæði þeirra þarf að tryggja með lögum þannig að það sé tryggt svo sem kostur er að háskólum verði ekki gefin fyrirmæli af hálfu stjórnvalda eða hagsmunaaðila um starfsemi sína. Hvorki um val á viðfangsefnum, aðferðum eða efnistökum af neinu tagi við rannsóknir. Vísar minni hlutinn í þessu efni til umsagna annars vegar frá skrifstofu rektors Háskóla Íslands og hins vegar frá Félagi háskólakennara og Félagi prófessora um mikilvægi þess að lögin séu skýr um þetta atriði.

Minni hluti menntamálanefndar telur mikilvægt að nemendur og kennarar eigi fulltrúa í háskólaráði allra háskóla. Svo er alls ekki nú þar sem sjálfstæðu einkareknu háskólarnir hafa þann háttinn alls ekki allir á. Háskólar eru í eðli sínu lýðræðislegar stofnanir og rík hefð hefur skapast fyrir aðkomu nemenda og kennara að stjórnun og skipulagi skólanna með setu í háskólaráðum þeirra, þó það eigi ekki við um alla starfandi háskóla. Nemendur og kennarar hljóta að vera dýrmætasta uppspretta hugmynda í hverjum háskóla. Án þeirra er ekkert starf og enginn háskóli. Það er því mat minni hlutans að nauðsynlegt sé nemendur og kennarar hafi beina aðkomu að ákvörðunum er varða stjórnun og skipulag skólanna. Slíkt væri í fullu samræmi við hugmyndafræðina bak við Bologna-samþykktina, en hún kveður á um að nemendur skuli eiga aðkomu að ákvörðunum skólanna á öllum stigum. Minni hlutinn flytur því breytingartillögu við 15. gr. frumvarpsins þess efnis að nemendur og kennarar eigi fulltrúa í háskólaráði hvers háskóla. Þetta teljum við mjög mikilvægt.

Þá að kennsluframlagi, eins og ég gerði að umtalsefni áðan.

Minni hlutinn gerir alvarlegar athugasemdir við að ekki skuli í frumvarpinu fjallað um starfsskilyrði háskóla og það hvaða sjónarmið skuli ráða ákvörðun um fjárveitingar til háskóla sem búa við mismunandi rekstrarform, eins og ég gat um áðan. Í því efni telur minni hlutinn mikilvægt að framlög hins opinbera til háskólanna byggist á sömu forsendum þótt starfsskilyrði þeirra og rekstrarform séu ólík, enda hafa aldrei færð nein eiginleg pólitísk rök fyrir því ójafnræði sem uppi er nema þá að einkareknu skólunum hafi verið gefið ákveðið forskot á upphafsárum þeirra. Árum saman hafa stjórnvöld daufheyrst við ákalli opinberu skólanna um aukið fjármagn til rekstrar. Forvígismenn Háskóla Íslands telja jafnvel að akademískt frelsi skólans geti verið í hættu vegna þess að ekki sé nægilega vel búið að skólanum fjárhagslega og að við honum blasi að grípa þurfi til umfangsmikilla fjöldatakmarkana eða krefjast heimilda til hárra skólagjalda eins og við teljum að verið sé að mörgu leyti að reka Háskóla Íslands og opinberu háskólana til að gera, þ.e. þeir herja á stjórnvöld um skólagjöld sem einhvers konar neyðar- og örþrifaráð út úr þrengingum sínum af því stjórnvöld hafa ekki pólitískan kjark til að leiða þau yfir skólana sjálf.

Minni hlutinn telur afar mikilvægt að jafnræðis sé gætt á milli sjálfstætt starfandi háskóla og opinberra háskóla. Því er ekki að heilsa núna og stjórnvöld hafa látið undir höfuð leggjast að skilgreina eftir hvaða viðmiðunum fjárveitingar til starfsemi skólanna fari. Það er sannarlega tímabært að stjórnvöld viðurkenni þörfina á að jafnræði með skólunum sé tryggt þannig að þeir hafi sömu fjármuni til ráðstöfunar til að standa undir kennslukostnaði hvert sem rekstrarform þeirra er. Mat minni hlutans er að leysa eigi þennan vanda í rammalögum um háskóla. Það er ekki forsvaranlegt að opinberu háskólarnir þurfi að vísa nemendum frá í stórum stíl á sama tíma og stjórnvöld halda því fram að þau vilji efla háskólamenntun í landinu.

Í umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið kom fram gagnrýni á að ekki skuli gert ráð fyrir því að fatlaðir nemendur eigi rétt á að greitt sé fyrir námi þeirra við háskóla. Samkvæmt frumvarpinu er það hverjum og einum háskóla í sjálfsvald sett hvernig þörfum fatlaðra nemenda er sinnt. Það er mat minni hlutans að full þörf sé á því að skilgreina rétt fatlaðra nemenda til náms, með sértækum hætti í rammalöggjöf um háskóla eins og gert er varðandi fatlaða nemendur í framhaldsskólum í 19. grein laga um framhaldsskóla. Þar er framhaldsskólunum gert skylt að veita fötluðum nemendum kennslu og sérstakan stuðning í námi, auk þess sem gert er ráð fyrir að fötluðum nemum sé látin í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntamálaráðuneytisins. Af þessu leiðir að kostnaður við fatlaða nemendur er metinn sérstaklega og greiddur úr ríkissjóði. Í því augnamiði að hið sama gildi um fatlaða nemendur í háskólum leggur minni hlutinn til breytingu á 19. gr. frumvarpsins.

Undir þetta ritum við allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd.