132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

háskólar.

433. mál
[17:30]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar er ég ásamt öðrum í minni hluta menntamálanefndar aðili að breytingartillögum og minnihlutaáliti frá menntamálanefnd. Ég tek undir það sem fram kom í ræðu hans varðandi þau atriði sem við fjöllum um í nefndaráliti okkar, sem varða fyrst og fremst akademískt frelsi, háskólaráð, fjármál og kennsluframlög og að lokum atriði er varða aðgengi fatlaðra nemenda.

En það eru ekki einu meinbugirnir sem ég sé á málinu. Mér finnst afar margt vanta upp á að þetta mál sé með þeim hætti að gott geti talist. Mér finnst málið einkennast af kappi hinnar hægri sinnuðu pólitíkur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið í menntamálum, því ofurkappi sem lagt hefur verið á fjölgun háskóla. En svo eru menn að átta sig á því að það þýðir ekki að fjölga háskólum út í hið óendanlega. Við verðum að tryggja að háskólar okkar standist allar þær gæðakröfur sem settar eru af háskólasamfélaginu á alþjóðlegum vettvangi. Í orði kveðnu ætlum við að miða okkur við hið besta. En þá skiptir líka máli að löggjöf okkar sé gegnheil og fylgi því eftir sem við segjum varðandi metnað okkar í háskólamálunum.

Að mínu viti gengur þetta frumvarp ekki nægilega langt í á þá átt að tryggja metnað í háskólamálum. Þetta frumvarp skilur okkur enn eina ferðina eftir með Háskóla Íslands, flaggskip æðri menntunar á Íslandi, án þess að ljóst sé hvernig við hyggjumst sjá þeirri öflugu stofnun fyrir því fjármagni sem þarf til að hún geti staðið undir nafni. Á sama tíma leggja einkaháskólarnir drög að fjölgun doktorsnema eða hafa sett á stofn doktorsnám hjá sér. En við höfum ekki haft fjármuni til að styðja við bakið á Háskóla Íslands í þeim efnum, að heimila þeim öfluga viðbót til fjölgunar doktorsnema.

Með nefndaráliti minni hlutans höfum við ákveðið að láta fylgja nokkrar umsagnir. Þar á meðal er mjög viðamikil og efnismikil umsögn frá Háskóla Íslands. Þar koma fram ýmis gagnrýnisatriði sem vert er að geta við þessa umræðu. Háskóli Íslands fagnar í grunninn framlögðu frumvarpi og telur ákveðin atriði og aðalatriðin í því til bóta, sérstaklega hvað varðar það að koma til móts við Bologna-ferlið, sem við erum jú formlegir aðilar að. Við ættum ekki að komast hjá því að innleiða það gæðamat sem Bologna-ferlið gengur út á. En þó skiptir verulegu máli að það sem Bologna-ferlið leggur okkur á herðar sé tryggt með fullnægjandi hætti. Tryggja þarf að fyrirkomulag þessa gæðaeftirlits, sem Bologna-yfirlýsingin gerir ráð fyrir að sé rekið hér, sé fullnægjandi innan háskólanna og að eftirlitinu með því sé nægilega vel sinnt af hálfu stjórnvalda. Ég held að það skorti aðeins á að ábyrgð stjórnvalda sé skilgreind nægilega vel í gæðamálunum og að viðurkennt sé að við getum ekki búið við að þetta gæðaeftirlit sé ekki reglulegt. Ég tel nauðsynlegt að það sé reglulegt. Ég held líka að ekki sé hægt að framkvæma það nema með öflugum erlendum eftirlitsstofnunum. Ég held að það hefði þurft að viðurkennast í orðanna hljóðan í þessu máli, taka skrefið alla leið og tala skýrt.

Það er jú ljóst að háskólarnir verða að lokum dæmdir af verkum sínum. Þeir verða dæmdir af því hve góða menntun þeir veita og hve hátt þeir standa á alþjóðlegum skala. En háskólarnir eru ekki bara ábyrgir fyrir því að veita góða menntun. Þeir þurfa líka að hafa innra eftirlit og meta gæði eigin starfsemi innan þriggja meginpósta háskólanna, þ.e. á sviði kennslu, rannsókna og stjórnunar.

Tryggja verður það að ytra gæðaeftirlitið sé á hendi óháðs aðila. Það verður líka að beinast að stofnuninni í heild og ganga þarf úr skugga um að innra eftirlitið og matið sem fer fram inni í stofnunum sé skilvirkt og þjóni tilgangi sínum. Upplýsingar um viðmið, mælikvarða og vinnubrögð eiga að liggja fyrir og vera öllum aðgengilegar og þetta er eitthvað sem hefði þurft að tryggja.

Ég er ekki nægilega sátt við umgjörðina, þ.e. hvernig þetta er orðað í frumvarpi menntamálaráðherra. Ég hef á tilfinningunni að við hefðum getað unnið málið lengra í menntamálanefnd. En um það var talsvert mikill ágreiningur í nefndinni og ég hef þá kenningu að formaðurinn hafi ekki gefið nægilegt olnbogarými til þess að taka öll sjónarmið til nægilega mikillar skoðunar. Það er kannski ekki ágreiningur milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar í grunninn í þessu máli. En á frumvarpinu er fljótaskrift sem gerir það að verkum að erfitt verður fyrir háskólana að starfa eftir þeim lögum sem væntanlega verða samþykkt. Það verður erfitt fyrir þá sem eiga að fara að þeim lögum að átta sig á því til fullnustu hvað er átt við í öllu tilliti.

Samtök evrópskra háskóla hafa, að sögn Háskóla Íslands eins og fram kemur í umsögn þeirra, sett fram ákveðnar kröfur í þessum efnum varðandi gæðamat. Það er alveg nauðsynlegt að tryggja að íslensk stjórnvöld fari eftir sömu gæðastöðlum og sömu kröfum þannig að þau viðmið sem samtök evrópskra háskóla hafa sett sameiginlega séu formlega okkar viðmið líka.

Mig langar síðan, frú forseti, að segja nokkur orð um hvernig háskólar erlendis eru flokkaðir og þá staðreynd að í ráðuneyti menntamála var ákveðið að fara ekki sömu leið og farin er í flestum nágrannalöndum okkar varðandi þá flokkun. Erlendis er víðast hvar gerður greinarmunur á tegundum háskóla á háskólastigi eftir eðli þeirra, starfsemi og hlutverkum. Það hlýtur að teljast eðlilegt að slíkur greinarmunur sé gerður skýrum stöfum í þeirri löggjöf sem hér stendur til að samþykkja. En það er ekki gert.

Ég held að ólíkar kröfur um námsframboð, rannsóknir og fræðilega uppbyggingu, kalli á að nemendur og aðrir sem sýsla við þessi mál og þurfa að meta þessa háskóla og fyrir hvað þeir standa fái að vita hvers konar háskóla er um að ræða í hverju tilviki. Eins og ég sagði áðan hefur háskólum fjölgað gríðarlega mikið en það er t.d. undir hælinn lagt hvaða erlendu þýðingar eru til staðar á þeirra nöfnum. Við vitum að gerðar eru kröfur um að skólar í útlöndum sem kalla sig „university“, eða „universitet“ upp á skandinavísku, séu með öðrum hætti en skólar sem nefna sig „yrkeshögskolar“ eða „distrikthögskolar, þ.e. landshlutaháskólar eða fagháskólar, sem við þekkjum afskaplega vel frá nágrannalöndum okkar á Norðurlöndunum. Á ensku væri hægt að tala um „community colleges“ eða „regional colleges“ yfir svæðisbundna háskóla eða „institute of higher education“. En íslenska hefur bara eitt orð yfir allar þessar ólíku tegundir háskóla. Þetta orð er, eins og sagt er í umsögn Háskóla Ísland, munntamt, þ.e. orðið háskóli.

Háskóli Íslands leggur til í umsögn sinni að menntamálanefnd hugleiði hvort ekki sé rétt að nota hugtökin skóli á háskólastigi annars vegar og háskóli eða rannsóknaháskóli hins vegar. Ég er sjálf fylgjandi því að nafngiftir stofnana lýsi starfi þeirra, hvers konar stofnanir þær eru og við forðumst að gefa misvísandi skilaboð út í umhverfið í þeim efnum. Ég harma því það að í frumvarpinu skyldi ekki valin sú viðtekna leið sem við þekkjum frá nágrannalöndum okkar.

Mér finnst það líka alvarlegt, frú forseti, að í þessu frumvarpi skuli ekki vera tekið almennilega á starfsskilyrðum háskóla eða hvaða sjónarmið skuli ráða ákvörðunum hins opinbera, í þessu tilfelli ríkisvaldsins, til háskóla sem búa við afar mismunandi starfsskilyrði.

Ég hef gagnrýnt það hvað eftir annað úr ræðustól á hvern hátt búið er að Háskóla Íslands og hvernig honum er mismunað miðað við einkaskólana. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum viljað endurskoðun í þessum efnum og talið það lífsnauðsynlegt að Háskóli Íslands fengi til kennslu og rannsókna það háar upphæðir eða það mikið fé að það dugi án þess að innheimt verði skólagjöld.

Um þetta atriði segir í umsögn Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er ekki fjallað um starfsskilyrði háskóla og hvaða sjónarmið skuli ráða ákvörðun um fjárveitingar til háskóla sem búa við mismunandi starfsskilyrði. Opinber framlög til háskóla byggjast á sömu forsendum þótt starfsskilyrði þeirra séu ólík. Nauðsynlegt er að leiðrétta þessa skekkju þannig að allir skólar búi við sömu skilyrði og skýrt sé eftir hvaða viðmiðunum fjárstýring til starfsemi þeirra fari. Það gengur ekki öllu lengur að það fé sem skólar hafa til ráðstöfunar til að standa undir kennslukostnaði sé mjög mismunandi eftir rekstrarformi þeirra.“

Ég tek heils hugar undir þetta og harma jafnframt að nefndin skyldi ekki ræða þessa þætti í smáatriðum, þ.e. eitt af grundvallaratriðunum í háskólalöggjöfinni, á hvern hátt stjórnvöldum ber að búa að stofnunum fjárhagslega.

Háskóli Íslands fjallar síðan að nokkru leyti um að gildissvið laganna þurfi að vera ótvírætt en svo sé ekki, enda falli landbúnaðarháskólarnir utan ákvæða frumvarpsins. Það er mat Háskóla Íslands að þetta þurfi að leiðrétta skólanna sjálfra vegna með hliðsjón af ákvæðum Lissabon-samningsins, sem nefndur er í umsögn Háskóla Íslands. En hann fjallar um viðurkenningu á menntun og hæfi að því er varðar æðra skólastig á Evrópusvæðinu. Mér finnst það athyglisvert sem kemur fram í umsögn Háskóla Íslands hvað þetta varðar og bendi á að það mál var heldur ekki tekið til neinnar skoðunar að ráði í menntamálanefnd, enda hefur manni skilist að um það ríki pólitísk sátt á milli stjórnarflokkanna tveggja, að við þessu verði ekki hróflað. Ég held því ekki fram að einboðið sé að landbúnaðarháskólarnir eigi að heyra undir menntamálaráðuneytið en það þarf að vera alveg skýrt og ótvírætt að meginatriði þessa frumvarps nái til þeirra líka.

Ég gæti svo sem farið hér víðar yfir, frú forseti, en þetta voru helstu atriðin, sem mér fannst skorta á talað væri skýrt um, fyrir utan þau atriði sem nefnd eru í nefndaráliti minni hlutans og breytingartillögum. En auðvitað er ákvæðið um hið akademíska frelsi háskólanna fyrir neðan allar hellur. Það vantar stórlega upp á það í þessu frumvarpi að haldið sé þannig á málum að viðunandi sé. Rannsóknafrelsi og sjálfstæði í fræðilegu tilliti eru grundvallaratriði í háskólastarfi og við verðum að tryggja það með lögum. Það er skylda okkar.

Það verður að vera algjörlega skýrt og þarf að vera skýrt í lögum að það er ekki hægt og verður aldrei liðið, er óforsvaranlegt, að háskólum verði gefin fyrirmæli af hálfu stjórnvalda eða hagsmunaðila um viðfangsefni, um aðferðir og efnistök við kennslu eða rannsóknir.

Ég tek undir það sem Háskóli Íslands segir í umsögn sinni, að óheppilegt sé að í frumvarpinu sé þessu mikilvæga atriði einungis lýst á þann veg að háskólinn hafi sjálfdæmi um starfsemi sína, eins og segir í 2. gr. frumvarpsins. Ég man ekki til þess — það getur verið að ég sé að fara með rangt mál — að því hafi verið breytt. Jú, því var breytt í breytingartillögum meiri hlutans, eða hvað? Nei, enn á að standa að þeir hafi sjálfdæmi varðandi starfsemi sína. Þetta er algjörlega óviðunandi. Fara þarf betur ofan í saumana á þessari skilgreiningu og því hvernig menn sjá fyrir sér að hinu akademíska frelsi sé fullnægt.

Nefna mætti ákveðin atriði sem ekki voru tekin til nægilegrar umfjöllunar innan nefndarinnar, m.a. er varðar hæfisskilyrði háskólakennara og kæruleiðir innan háskólans, sem hefði kannski mátt fara betur í. En ég held að eins og málum var háttað í nefndinni hafi ekki verið vilji fyrir því að vinna málið lengra í sátt. Þess vegna skildu leiðir mjög fljótt milli minni hluta og meiri hluta. Við, fulltrúar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni, höfum þess vegna skilað séráliti sem gerð hefur verið grein fyrir.

Það mætti hafa miklu lengra mál um þetta efni en tíminn og aðstæður leyfa það ekki, þannig að ég lýk hér máli mínu.