132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

grunnskólar.

447. mál
[17:55]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Frú forseti. Ég geri hér grein fyrir áliti minni hluta menntamálanefndar varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir um breytingar á lögum um grunnskóla. Í minni hluta menntamálanefndar eru auk mín hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason. Þá styður áheyrnarfulltrúi í nefndinni, Magnús Þór Hafsteinsson, einnig það álit sem ég geri hér grein fyrir.

En fyrst, frú forseti, er rétt að taka fram að ýmislegt í því frumvarpi sem hér liggur fyrir um breytingar á lögum um grunnskóla er til bóta. Hins vegar er ekkert af þessum tillögum þannig að það kalli á að keyra þetta mál hér í gegn núna af þeirri einföldu ástæðu að nú er unnið í nefnd að heildarendurskoðun grunnskólalaga. Eðlilegra er að þessi mál séu skoðuð þar þannig að það sé allt í réttu samhengi.

Frú forseti. Ég held að enginn af minnihlutafulltrúum að minnsta kosti í menntamálanefnd, og trúlega ekki allir úr meiri hlutanum, hafi gert ráð fyrir að þetta frumvarp kæmi hér á dagskrá, heldur hafi þetta fyrst og fremst verið frumvarp til að sýna ákveðna stefnu ákveðins hluta Sjálfstæðisflokksins.

Það var athyglisvert að á fund nefndarinnar komu ýmsir gestir og m.a. leiðtogi Sjálfstæðisflokksins hér í Reykjavík sem hafði afskaplega skýrar skoðanir á því. Það er rétt að vekja athygli á að álit minni hlutans er mjög svo í takt við álit oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík enda hefur sá ágæti maður mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum og áttar sig alveg á því hvaða mál eru prinsippmál í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

En því er nú verr og miður, það virðist ekki hafa hljómgrunn í meiri hluta menntamálanefndar og af einhverjum ástæðum virðist sú reynsla ekki hafa komist til skila í menntamálaráðuneytinu. Er full þörf á að það sé kannað með hvaða hætti megi tryggja að þekking á sveitarstjórnarmálum og þekking á samskiptum ríkis og sveitarfélaga komist inn fyrir dyr þar.

Frú forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur að komið verður með breytingartillögur við 3. umr. við frumvarp þetta sem felur það í sér að það mun ekki taka gildi fyrr en 1. janúar árið 2007. Það er fagnaðarefni að það skref er stigið vegna þess að það gefur möguleika á að sú nefnd sem nú starfar að heildarendurskoðun grunnskólalaga fái svigrúm til að fara yfir þessa þætti einnig. Það er vonandi að það verði til bóta og tryggi að meiri sátt verði um þau lög um grunnskóla sem koma út úr því starfi.

Frú forseti. Með frumvarpinu eru gerðar nokkrar breytingar á grunnskólalögum, nr. 66/1995, m.a. varðandi grunnskóla sem ekki eru reknir af sveitarfélögum. Umsagnir bárust frá ýmsum aðilum, m.a. Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem gerir mjög alvarlegar athugasemdir við 23. gr. frumvarpsins. Í þeirri grein er m.a. lagt til að lögfest verði lágmarksframlag sveitarfélaga til einkarekinna grunnskóla. Með framangreindri grein er gerð breyting á 56. gr. grunnskólalaganna en í henni kemur m.a. fram að einkaskólar eigi ekki rétt til styrks af almannafé.

Verði frumvarpið að lögum skal framangreint lágmarksframlag vera 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendum en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.

Minni hlutinn í menntamálanefnd telur að framangreind breyting geti haft í för með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Þetta er eitt af þeim atriðum sem kallar á að öðruvísi sé staðið að slíkum samskiptum á milli ríkis og sveitarfélaga en þannig að eitt fagráðuneyti komi með frumvarp hér í gegn án þess að farið sé yfir hugsanlegar kostnaðarbreytingar — og það þrátt fyrir að fyrir liggi yfirlýsingar frá, ef ég man rétt, nokkrum hæstv. félagsmálaráðherrum um að frumvörpum eigi að fylgja útreikningar, ekki bara á kostnaðarauka eða breytingum hjá ríkissjóði heldur einnig hjá sveitarfélögum. Það skortir algjörlega í þessu tilfelli og er það enn eitt atriðið sem kallar á að skoða þurfi betur og fara aðrar leiðir í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Minni hlutinn telur að lögbinding á lágmarksframlagi til einkaskóla gangi gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga og brjóti í bága við markmið sveitarstjórnarlaga. Þá er þessi lagasetning í hrópandi andstöðu við þróun undanfarinna ára varðandi löggjöf um verkefni sveitarfélaga, því slíkar íhlutanir í starfsemi og rekstur sveitarfélaga mátti áður finna en hafa nú nánast allar verið aflagðar.

Minni hlutinn telur einnig að frumvarpið feli í sér breytingar sem leiða til aukinnar miðstýringar á skólastarfi. Þess í stað væri æskilegra að lög um grunnskóla væru rammalöggjöf líkt og á við um framhaldsskóla.

Frú forseti. Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna er í raun og veru heilagur. Það ætti ekki að hvarfla að nokkurri ríkisstjórn eða nokkrum ráðherra að ganga gegn slíku. Ganga gegn þeirri þróun sem átt hefur sér stað í samskiptum ríkis og sveitarfélaga í löggjöf. Hér er stigið skref gegn þróuninni og stórt skref aftur á bak í þessum samskiptum. Þess vegna var það ekkert sérkennilegt þegar fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga komu á fund menntamálanefndar að þá kæmi formaður sambandsins sérstaklega á fundinn, sem er afar óvenjulegt því að yfirleitt eru það starfsmenn sambandsins sem mæta. En svo mikil var áhersla Sambands íslenskra sveitarfélaga á þetta mál að formaðurinn sjálfur mætti á fundinn og fór ítarlega yfir málið og gerði tilraun til að vekja athygli hv. þingmanna í menntamálanefnd á því hversu stórt mál væri hér á ferðinni. En því miður virðist trúarsetning sumra varðandi einkaskólana vera öllu öðru æðra og þar af leiðandi gleyma menn þessu mikilvæga atriði varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga og þar af leiðandi gleymist hið mikilvæga sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaganna í hinum mikla æðibunugangi að ná þessu fram.

Herra forseti. Þegar frumvarpið kom fram virtist það vera svo að meiri hlutinn á Alþingi, og þá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokkurinn, hefði ekki trú á að þeirra flokkur kæmist til valda í Reykjavík. Það kom fram hér í umræðum, ég held að ég fari rétt með að það hafi verið í ræðu hjá formanni menntamálanefndar, að í raun og veru væri þetta frumvarp sett fram gegn meiri hlutanum í Reykjavík vegna eins sveitarfélags. Þess vegna vekur það enn meiri furðu þegar nýr meiri hluti er kominn í Reykjavík að förinni er samt haldið áfram. Hvað segir það? Það segir okkur nákvæmlega það, (Gripið fram í.) vísað í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, að traustið nær ekki einu sinni til hins nýja meiri hluta í Reykjavík. Honum er ekki heldur treystandi fyrir þessu fjöreggi í grunnskólum landsins að mati Sjálfstæðisflokksins. Nei, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, verðandi borgarstjóri, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, er ekki traustsins verður. Þetta eru sérkennileg skilaboð en eru engu að síður staðreynd því að mér sýnist ýmislegt benda til þess að ekki verði nokkur leið að fá þessu hnikað úr því sem komið er.

Frú forseti. Eitt sérkennilegt enn, vegna þess að skipuð hefur verið nefnd til að gera tillögu að heildarendurskoðun á grunnskólalögunum, nefndinni er ætlað að skila hæstv. menntamálaráðherra stuttri áfangaskýrslu í september 2006 og fullunnu frumvarpi eigi síðar en í lok árs eða í desember 2006. Minni hlutinn telur löngu tímabært að sú endurskoðun eigi sér stað og eðlilegt að þær tillögur sem fram koma í frumvarpinu verði hluti af þeirri heildarendurskoðun. Með slíkum vinnubrögðum er mun líklegra að náist víðtæk sátt um breytingar á jafnmikilvægri löggjöf. Það vekur ugg að þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir skuli framlagðar gegn vilja Sambands íslenskra sveitarfélaga í ljósi þess að sveitarfélögunum hefur verið falin ábyrgð á rekstri grunnskólans. Vísa ég þá aftur til þess sem ég sagði áðan að mikilvægt er að samskiptin séu með þeim hætti að traust ríki á milli aðila.

Rétt er að vekja athygli á að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, og þar á meðal verðandi borgarstjóri í Reykjavík, lögðu áherslu á að það væri eðlilegt að þetta frumvarp yrði sent til þeirrar nefndar sem er að vinna að heildarendurskoðuninni. Við verðum því að vona að það sem kom fram í ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur áðan um að gildistakan, það skref sem er þó stigið þar, verði ekki fyrr en 1. janúar 2007 verði til þess að nefndin taki þetta inn hjá sér og fari yfir þetta og geri tillögur um þær greinar sem hér er verið að gera tillögur um jafnt sem aðrar greinar í grunnskólalögunum, enda er verkefni nefndarinnar að viðhafa heildarendurskoðun á lögunum.

Frú forseti. Af framansögðu leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Magnús Þór Hafsteinsson, áheyrnarfulltrúi í menntamálanefnd, er samþykkur áliti þessu. Undir það rita auk mín hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason.