132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[18:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það frumvarp sem er hér til 2. umr. er til breytinga á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Ég vil víkja að nokkrum atriðum í frumvarpinu.

Í fyrsta lagi vil ég leggja áherslu á það sjónarmið mitt hvað varðar löggæslu að hún sé fyrst og fremst þjónustustarfsemi. Starfsemi lögreglu og sýslumanna er fyrst og fremst einn mikilvægasti þáttur í almannaþjónustu. Þessi embætti eru þjónustustofnanir, eru oft einu umboðsaðilar ríkisins í héraði auk þess að fara með lögreglustjórn. Þessi nærþjónusta skiptir því íbúana verulega miklu máli. Starfsemi lögreglumanna tengist ekki einungis löggæslumálum, því að elta uppi þjófa og þá sem brjóta umferðarlögin. Mér finnst þetta frumvarp taka allt of mikið mið af því enda er eitt af markmiðum frumvarpsins að efla löggæslu en ekki endilega þjónustu. Það þarf ekki alltaf að fara saman, þó að gæslan geti verið hluti af þjónustunni þá er önnur nálgun sem ég vil setja ofar þegar verið er að tala um þessa þjónustu. Hér er þetta lagt upp eins og meginmarkmiðið sé að elta uppi þjófa og afbrotamenn frekar en að veita íbúum almenna þjónustu.

Síðan eru það þau atriði sem ég vil gera athugasemdir við. Það er um skiptingu landsins í lögregluumdæmi sem hér er verið að breyta. Lögreglan er einn af mikilvægustu þáttum í almannaþjónustu viðkomandi byggðarlaga, ég tala nú ekki um á strjálbýlum svæðum þar sem langt er á milli þjónustustöðva, og því skiptir miklu máli að þessi löggæsla sé til staðar. Hér er jú áfram gert ráð fyrir óbreyttri stöðu hvað varðar sýslumennina en sú breyting verður t.d. á að sýslumaðurinn í Borgarnesi fer með lögreglustjórn í umdæmi sýslumannsins í Búðardal og sýslumaðurinn á Ísafirði fer með lögreglustjórn í umdæmum sýslumanna á Patreksfirði, Bolungarvík og Hólmavík. Mér finnst þetta fáránleg ráðstöfun. Lögreglan í Búðardal hefur jú heyrt undir sýslumanninn í Búðardal og hvers vegna má það ekki vera áfram? Það hefði þá frekar átt að huga að byggðum eins og Reykhólum, að Reykhólar heyri undir lögregluna í Búðardal frekar en að Reykhólar og Patreksfjörður eigi að vera hluti af lögregluumdæmi Ísafjarðar og sömuleiðis Hólmavík. Þarna eru fleiri hundruð kílómetrar á milli og erfitt í vetrarfærð. Það hefði verið nær að styrkja stöðu þessara embætta, þessara dreifbýlisþjónustustöðva, frekar en að gera þjónustuna mun erfiðari með því að færa yfirstjórn hennar til í mörg hundruð kílómetra fjarlægð. Ég tel þetta rangt og þetta sýnir ekki mikinn hlýhug til þessara dreifðu byggða.

Ég vil líka vekja athygli á því hve lítið tillit er tekið til athugasemda og óska heimamanna. Ég er t.d. hér með afrit af undirskriftum 222 íbúa Dalasýslu, meginþorra íbúa, þar sem þeir mótmæla því að yfirstjórn lögreglunnar í Dalasýslu sé færð til Borgarness og vilja sjá aðra skipan á. Þeir hafa ekki fengið neitt svar annað en það sem birtist hér í þessu frumvarpi til laga. Ekki kom framsögumaður allsherjarnefndar, sem kynnti málið, inn á það að borist hefði slíkt undirskriftarskjal. Mér finnst þetta ekki sýna virðingu við íbúa landsbyggðarinnar, íbúa þessa svæðis. Ekki er drepið einu einasta orði á athugasemdir nánast allra íbúa þar. Ég kalla þetta virðingarleysi.

Ég hef líka ályktun frá Hólmavíkurhreppi þar sem þeir lýsa sömu áhyggjum yfir því skilningsleysi sem hér er á ferðinni, að færa yfirstjórn lögreglumála í mörg hundruð kílómetra fjarlægð og auk þess í þá átt sem þeir eiga kannski sjaldnast leið um, þ.e. inn til Ísafjarðar. Sú skipan mála sem hér er verið að leggja til — ég tel að vinnubrögðin í kringum þetta séu ekki til sóma og sýni lítinn skilning á þjónustuhlutverki þessara embætta. Það ætti frekar að styrkja þau í sinni heimabyggð en að vera að færa yfirstjórn þeirra langt burt.

Síðan hafa það verið þau rök, eins og við höfum heyrt hér áður, að í stað þess að styrkja lögregluembættin sjálf sé verið að stilla upp sérsveitum, sérsveitum í Reykjavík, sérsveitum á Akureyri, sem eru síðan sendar heim í byggðirnar þegar eitthvað meira liggur við. Friðsama, skemmtilega og góða Laufskálaréttin í Skagafirði — þangað þótti sérstök ástæða til þess að senda sérsveitir lögreglunnar til að fylgjast með í staðinn fyrir að leyfa lögreglunni í heimabyggð að sjá um það. Ég tel þessa nálgun mála ekki vera farsæla, verð bara að segja það. (Gripið fram í.) Þetta er peningaplokk, já. Í staðinn fyrir að styrkja þjónustu lögreglumanna í heimabyggð er verið að fara þessa miðstýrðu leið með ofurtrú á það að koma upp sérsveitum sem síðan eru sendar þangað sem menn telja að aukinnar löggæslu þurfi við án þess að sú sveit þekki þar nokkuð til.

Það sama á við um lögreglurannsóknirnar. Þar er líka verið að búa til allt annað landslag en verið hefur. Til dæmis á lögreglurannsóknarstaðan fyrir Norðurland að vera á Akureyri, fyrir Húnavatnssýslur og Skagafjörð. Í sjálfu sér er ekkert við Akureyri að athuga annað en það að þetta er í öfugri leið við það sem venjulegast er um ferðir fólks. Auk þess hefði verið miklu nær að byggja þetta starf upp, rannsóknarlögreglustarfið, annaðhvort á Sauðárkróki eða á Blönduósi fyrir svæði sem á samleið hvað varðar samgöngur og félagsmál, samleið sem það á ekki með Akureyri. Sú árátta að færa verkefnin frá íbúunum inn í miðstýrðar stöðvar finnst mér vera röng. Og þessi skilgreining, að skilgreina einhverjar landshlutamiðstöðvar sem eru síðan notaðar til þess að draga verkefnin frá byggðunum inn á stöðvarnar, finnst mér vera röng. Réttlæting fyrir að byggja upp Akureyri sem eitthvert mótvægi við höfuðborgina er að færa störf eða verkefni frá öðrum stöðum. Til þess að byggja Ísafjörð upp er stjórnsýslan færð frá Hólmavík, Patreksfirði eða Reykhólum. Mér finnst þetta röng nálgun og get ekki stutt hana.

Hitt er svo annað mál að það sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur verið að gera með því að færa önnur verkefni til sýslumannsembættanna, eins og skráningar og skrifstofu- og úrvinnslustörf sem tengjast málefnum lögreglu eða dómsmála, finnst mér lofsvert. Það er allt annar hlutur og tengist þessum málum í sjálfu sér ekki beint. Ég get alveg hælt hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þær aðgerðir og vona að hann geri sem mest af slíku. Mér finnst hann þar vera að stíga ágæt skref. Það er rétt að geta þess sem vel er gert.

Herra forseti. Þessum atriðum vildi ég koma að. Ég tel að sú skipan lögreglumála sem hér er verið að leggja til varðandi strjálbýlustu svæðin sé ekki rétt. Það á að styrkja lögregluþjónustuna í þessum byggðarlögum frekar en að fletja hana út. Ég minni á það aftur að ég er með undirskriftarskjal sem var afhent hæstv. dómsmálaráðherra, að ég best veit, og öllum þingmönnum kjördæmisins. Ég hélt líka að hv. allsherjarnefnd hefði fengið það, ósk um aðra skipan.

Fyrir hverja er lögreglan, fyrir hverja er þessi þjónusta? Jú, hún er fyrir íbúana. Hún er ekki fyrir ríkislögreglustjóra, hún er ekki fyrir dómsmálaráðherra, hún er fyrir íbúa á viðkomandi svæðum, þessi þjónusta er fyrir þá. Þess vegna eigum við að byggja hana upp út frá því sjónarhorni, hlusta á óskir heimafólks og vinna úr þeim í staðinn fyrir að gera lítið eða ekkert með þær.

Herra forseti. Ég get rakið fleiri athugasemdir frá hinum ýmsu héruðum á landinu sem finna að þessari skipan en læt hér við sitja. Ég lýsi því yfir að ég get ekki stutt þá tilhögun sem hér er verið að leggja til, breytingar og skerðingu á forsjá lögreglunnar í dreifbýlinu.