132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

651. mál
[20:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í atkvæðagreiðslu í lok 2. umr. boðaði ég að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mundu sitja hjá við afgreiðslu málsins. Við gætum ekki stutt málið vegna ófullnægjandi og reyndar mjög varasamra skilgreininga á hugtakinu „hryðjuverk“ í lögum. Reyndar er það svo að í þessu frumvarpi er vísað í önnur lög, almenn hegningarlög.

Eins og fram kom í máli hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar tók nefndin þetta til athugunar og gerði grein fyrir afstöðu sinni í framhaldsnefndaráliti sem hér hefur verið mælt fyrir. Ég er mjög sáttur við þetta og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teljum þetta mikilvægan árangur og framfaraskref sem vonandi verður stigið. Við munum styðja frumvarpið.