132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

vegabréf.

615. mál
[20:47]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Það er rétt að gildistími vegabréfanna er styttur úr tíu árum í fimm samkvæmt þessu frumvarpi en í frumvarpinu er líka ákvæði um að heimilt sé að lengja gildistímann í tíu ár ef sá tæknilegi búnaður sem notaður er við framleiðslu vegabréfanna og örgjörvinn í vegabréfunum endist lengur en í fimm ár. Það má því segja að það sé varúðarregla að hafa gildistímann í fimm ár en ef þetta reynist allt eins og að er stefnt er heimilt að lengja gildistíma vegabréfanna í tíu ár, svo spurningunni um gildistímann sé svarað.

Varðandi Íslendinga erlendis er það svo að í fimm sendiráðum erlendis verður sambærilegur búnaður og er í sýslumannsskrifstofum hér á landi til þess að gefa út vegabréfin og síðan er hugsanlegt að hafa færanlegan búnað sem yrði þá farið með og tilkynnt um þann búnað með góðum fyrirvara og þá gæti fólk komið á ákveðna staði í fjarlægum löndum og látið endurnýja vegabréf sín á ræðisskrifstofum eins og nú er. Það hefur þegar reynt á þetta með nýju vegabréfin vegna fjölskyldu sem búsett er í Hong Kong því í Asíu þurfa menn að nota vegabréf mjög til þess að sanna sig á ferðalögum og fá mikla stimpla. Vegabréfin eða bækurnar endast því ekki eins og skyldi, hvort sem menn miða við fimm eða tíu ár og þetta mál hefur verið leyst á viðunandi hátt fyrir þá fjölskyldu. Þar með hefur líka verið mótuð ákveðin regla varðandi þetta þannig að ég tel að þetta vandamál sé leysanlegt og það sé vilji til að leysa það.