132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[21:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég hef áður greint frá afstöðu minni til þessara laga, bæði við 1. og 2. umr. málsins. Hér er verið að gera umfangsmiklar breytingar á stjórnsýslu innan lögreglunnar og ég legg áherslu á að náið samráð verði haft við Landssamband lögreglumanna, hagsmunasamtök starfsmanna, við þessar breytingar.

Í annan stað vek ég athygli á því að með þessum lögum er verið að koma á fót svokölluðum greiningardeildum innan lögreglunnar. Þær hafa sams konar hlutverk og er að finna í núverandi lögreglulögum og þar vísa ég í 5. gr. núverandi lögreglulaga. Hins vegar er í greinargerð með frumvarpinu áréttað mikilvægi þess að lögreglan sinni fyrirbyggjandi starfi, sem þýðir að hún þarf að fylgjast með þeim sem líklegt eða hugsanlegt er að fremji lögbrot. Þetta krefst mjög ríkulegs lýðræðislegs aðhalds með starfsemi lögreglunnar hvað þetta snertir og ég legg áherslu á að Alþingi taki þessi mál til gagngerrar skoðunar á komandi þingum. En ég styð málið í heild sinni.