132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[21:11]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Löggjafinn gengur allt of langt í forræðishyggju yfir fullorðnu og sjálfráða fólki. Við fluttum hér fjórir þingmenn breytingartillögu sem kvað á um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skyldi leyfa reykingar í sérstökum herbergjum eða á afmörkuðum svæðum á veitinga- og skemmtistöðum, í rými sem yrði aðgreint frá öðru rými og ekki yrði veitt þjónusta þar. Þannig yrði tryggt að þeir sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum þyrftu ekki að anda að sér reyk og þeir gestir veitinga- og skemmtistaða sem kjósa að vera ekki í reyk ættu þess alltaf kost. Við réttum fram sáttarhönd, buðum upp á mildari leið að sama markmiði. Sú leið er ekki fortakslaust bann eins og frumvarpið felur í sér heldur er þeim veitingahúsaeigendum sem það kjósa heimilt að halda úti veitingastöðum með sérstöku reykingarými.

Ég harma að sú breytingartillaga skuli hafa verið felld og að henni felldri segi ég nei við þessu frumvarpi.