132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

grunnskólar.

447. mál
[21:15]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Minni hlutinn í menntamálanefnd flutti tillögu með rökstuddri dagskrá um að þessu máli yrði vísað frá. Sú tillaga var felld.

Við leggjumst eindregið gegn málinu. Hér er gengið með dæmalausum og freklegum hætti gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. Fá fordæmi finnast fyrir slíkum gerningi. Samband íslenskra sveitarfélaga lagðist t.d. gegn 23. gr. frumvarpsins sem kveður á um að einkaskólar eigi rétt til styrks af almannafé um 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum á landinu á hvern nemanda árlega. Gegn þessu lagðist sambandið eindregið. Á fund menntamálanefndar mætti t.d. formaður sambandsins, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, núverandi borgarstjóri í Reykjavík. Hann lagðist á þeim tíma gegn því að þetta mál gengi fram enda væri svo freklega gengið gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga að þessi lagagrein ætti alls ekki að ná fram að ganga.

Við í minni hluta menntamálanefndar leggjumst eindregið gegn þessu máli. Það er að sjálfsögðu sveitarfélaganna að ákveða það hve miklum fjárhæðum þau verja til að greiða rekstrarkostnað nemenda í einkareknum skólum. Megi þeir blómstra sem best en það er ekki ríkisvaldsins að ganga með þessum hætti gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Sveitarfélögin reka grunnskólana í landinu og hafa sinnt því hlutverki með frábærum árangri í rúman áratug. Það er fáheyrt að ríkisvaldið komi með þessum hætti ofan frá með valdboði og dæmalausri miðstýringu í menntakerfinu og skikki sveitarfélögin til að greiða þessa eða hina upphæð með nemendum í einkareknum skólum. Það eiga sveitarfélögin að sjálfsögðu að gera upp við sig sjálf enda bera þau ábyrgð á rekstri grunnskólanna og hafa með þann rekstur að gera.

Málið er eitt af verri málunum sem komu fyrir Alþingi í vetur og lengi var vart hægt að trúa að full alvara væri á bak við að afgreiða það sem lög frá Alþingi. Svo illa var málið úr garði gert og vanbúið og dæmalaust innihaldið að þverpólitísk samstaða varð um það hjá sveitarstjórnarmönnum að það skyldi ekki ná fram að ganga. Við segjum því að sjálfsögðu nei við þessu frumvarpi.