132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

grunnskólar.

447. mál
[21:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um mikið deilumál. Deilurnar eru afar djúpstæðar. Hæstv. menntamálaráðherra lagði málið fram illa undirbúið og án samráðs enda var því mótmælt kröftuglega í menntamálanefnd.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur haldið því fram að verið sé að auka sveigjanleika og fjölbreytni í námi íslenskra skólabarna. Ég lýsi því yfir að við, löggjafarsamkundan á Alþingi, höfum alla möguleika til að auka sveigjanleika og fjölbreytni í skólastarfi með lagasetningu okkar. Sveitarfélög hafa það líka án þess að heimila einkaskólum það sem heimilað er með því frumvarpi sem hér er afgreitt sem lög frá Alþingi. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum hvatt til að sveigjanleiki kerfis okkar sé nýttur til hins ýtrasta. En fari hægrisinnuð menntastefna fram sem horfir, undir forustu Sjálfstæðisflokksins eins og hér er gert, hættum við á að þeir sem aðhyllast einkarekstur í krafti auðs og valda fari af stað með sína skóla fyrir ríku börnin. Það býður upp á misskiptingu til náms. Það eyðileggur hugsjónir okkar um jafnan rétt allra til náms í grunnskólum.

Við í stjórnarandstöðunni höfum barist ötullega gegn þessu máli, sem var rifið úr menntamálnefnd í bullandi ágreiningi. Ágreiningurinn á auðvitað eftir að halda áfram en nú er það von okkar sem höfum barist gegn þessu að hægt verði að bjarga í nefndinni sem nú er starfandi á vegum menntamálaráðherra og er að endurskoða grunnskólalögin í heild sinni. Þangað á auðvitað að vísa þessu máli, þar á það heima en ekki óundirbúið og illa reifað í sölum Alþingis.