132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

kjararáð.

710. mál
[21:27]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um kjararáð frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd en nefndarálitið er að finna á þskj. 1334.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu fékk nefndin gesti á sinn fund og umsagnir og ætla ég ekki að rekja það frekar.

Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót kjararáði sem leysi af hólmi Kjaradóm og kjaranefnd. Ráðið ákveður með bindandi hætti laun og starfskjör æðstu handhafa ríkisvalds og þeirra ríkisstarfsmanna sem svo háttar til um vegna eðlis starfa þeirra eða samningsstöðu að launakjör geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt.

Tekið er fram að þessa undantekningu fyrir ríkisstarfsmenn verði að skýra þröngt. Nefndin tekur undir það sjónarmið og telur að ýmsir hópar ríkisstarfsmanna sem nú heyra undir kjaranefnd ættu að hafa möguleika á að semja sjálfir um laun sín og starfskjör. Það er og mat nefndarinnar að löggjafinn þurfi að fara mjög varlega í því að afnema veigamikil réttindi fólks til að semja sjálft um kjör sín. Eingöngu þeir ríkisstarfsmenn sem illmögulega geti samið um kjör sín skuli ekki njóta þessara réttinda.

Nefndin leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til að greinarmunur á „embættismönnum“ og „öðrum ríkisstarfsmönnum“ í 4. gr. frumvarpsins verði afnuminn. Samkvæmt greininni eiga allir embættismenn aðrir en þeir sem um ræðir í 3. gr. að falla undir kjararáð, þó að frátöldum nánar tilteknum hópi. Með öðrum orðum er ekki um neitt mat að ræða hvað embættismennina varðar eins og á við um aðra ríkisstarfsmenn. Nefndin telur aðgreininguna ástæðulausa; annaðhvort geta menn samið um kjör sín eða ekki, samanber umsögn kjaranefndar. Því til stuðnings áréttar nefndin að embættismenn teljast til ríkisstarfsmanna.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 4. mgr. 9. gr. þannig að kjararáð skuli ekki aðeins taka tillit til kvaða og hlunninda sem fylgja starfinu heldur leggja mat á verðmæti slíkra atriða, t.d. lífeyrisréttinda og þess starfsóöryggis sem fylgir t.d. þingmannsstarfi. Slíkt mat auðveldar raunhæfan samanburð á launum þingmanna og annarra í þjóðfélaginu.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins sem lýtur að því að taka út sjálfvirka vísitölubindingu launa. Bent hefur verið á að vafasamt getur verið að lögbinda vísitölubundnar hækkanir. Í því sambandi tekur nefndin fram að kjararáði er í lófa lagið að hittast oft, jafnvel mánaðarlega, og taka ákvörðun um breytingar á launum með hliðsjón af slíkri vísitölu án þess að um sjálfvirka hækkun sé að ræða.

Í fyrrnefndri 2. mgr. 10. gr. kemur fram í 2. málsl. að kjararáð geti ákveðið að stefnumarkandi ákvarðanir um innbyrðis launahlutföll og heildarstarfskjör á ákvörðunarsviði ráðsins séu teknar sjaldnar, til dæmis þriðja eða fjórða hvert ár. Eins og hefð er fyrir í kjarasamningum er það skilningur nefndarinnar að ráðið geti ákvarðað laun fram í tímann. Þannig gæti það t.d. ári fyrir kosningar tekið stefnumarkandi ákvörðun um laun þingmanna sem gilda ætti fyrir næsta kjörtímabil.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jónína Bjartmarz, Guðjón Ólafur Jónsson, Birgir Ármannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Ásta Möller, Ögmundur Jónasson og Lúðvík Bergvinsson, með fyrirvara.

Frú forseti. Mig langar til að bæta við nokkrum orðum frá eigin brjósti varðandi þetta mál. Í fyrsta lagi er mikill vandi að ákvarða laun þingmanna vegna þrískiptingar valdsins, það er alltaf mikill vandi hver á að ákvarða laun þeirra. Í mörgum þingum er það þingið sjálft sem ákvarðar laun þingmanna og tekur á því ábyrgð. Hér er lagt til að þingið geri það óbeint með því að tilnefna þrjá menn í kjararáð og aðrir tveir eru tilnefndir annars vegar af Hæstarétti og hins vegar af fjármálaráðherra. Þannig taki þingið ábyrgð á þeim launum.

Þá hefur verið nefnt að þessi lög taki rétt af fólki til að semja um kjör sín og reyndar er það þannig að tekið er fram að þeir skuli heyra undir ráðið. Hópar eins og t.d. prófessorar, prestar og forstöðumenn ríkisstofnana mundu væntanlega geta samið um kjör sín eins og aðrir hópar, hjúkrunarfræðingar, læknar og kennarar, sem og forstöðumenn í fyrirtækjum á almennum markaði.

Þá hefur mér verið bent á að ekki er tekið tillit til menntunar eða reynslu hvað varðar laun þingmanna eins og í öllum öðrum greinum í þjóðfélaginu og þetta getur leitt til neikvæðs úrvals vegna þess að fólk sem hefur lagt í dýra fjárfestingu í menntun og er með há námslán á bakinu hafi illa ráð á því að bjóða sig fram til þings vegna þess að það þurfi hærri laun til að standa undir fjárfestingunni við menntunina.

Ljóst er að mat á lífeyrisréttindum þingmanna hefur oft verið mikið rætt og menn hafa sagt að þetta séu óskaplega góð réttindi og þau eru það sannarlega en þau eru samt í takt við það sem gerist í B-deild LSR, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, og að mestu leyti sniðin eftir þeim reglum. Þegar Alþingi breytti lögum um lífeyrisréttindi gerðist það sem hefur ekki komið fram í umræðunni að réttindi þingmanna skertust vegna þess að þeir borga 5% iðgjald í stað 4% áður án þess að réttindin hækkuðu því samfara, en þetta hefur vantað inn í umræðuna.

Ég vona að frumvarpið fái farsælan framgang á Alþingi. Ég minni á að til að kjararáð verði starfhæft þarf Alþingi að tilnefna þrjá í kjararáð og það gerist að sjálfsögðu ekki fyrr en búið er að auglýsa og birta lögin. Þess vegna þarf þetta frumvarp að hafa ákveðinn forgang umfram önnur frumvörp og mér skilst að það muni verða svo.