132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

kjararáð.

710. mál
[21:34]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli formanns efnahags- og viðskiptanefndar liggur á að lögfesta það frumvarp sem hér er til umræðu um kjararáð. Ég skal því ekki hafa mörg orð um málið þó að ef til vill væri ástæða til að gera það og fara yfir umsagnir sem fram komu um málið sem voru þó nokkrar, nokkrar ítarlegar, og ýmsar ábendingar sem þar komu fram um breytingar á frumvarpinu sem ekki var tekið tillit til.

Ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skrifuðum undir nefndarálitið með fyrirvara sem ég ætla að gera grein fyrir. Við erum sammála þeim breytingartillögum sem efnahags- og viðskiptanefnd leggur til og meginatriði þess sem fram kemur í nefndarálitinu frá efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég vil þó gera athugasemd við það sem fram kemur aftarlega í nefndarálitinu og vil ég vitna til þess, með leyfi forseta:

„Í fyrrnefndri 2. mgr. 10. gr. kemur fram í 2. málsl. að kjararáð geti ákveðið að stefnumarkandi ákvarðanir um innbyrðis launahlutföll og heildarstarfskjör á ákvörðunarsviði ráðsins séu teknar sjaldnar, til dæmis þriðja eða fjórða hvert ár. Eins og hefð er fyrir í kjarasamningum er það skilningur nefndarinnar að ráðið geti ákvarðað laun fram í tímann.“

Kjararáð getur vissulega tekið ákvarðanir sem eru fram í tímann en ég er ósammála þeirri leiðsögn sem mér finnst felast í því sem fram kemur í næstu setningu í nefndarálitinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þannig gæti það t.d. ári fyrir kosningar tekið stefnumarkandi ákvörðun um laun þingmanna sem gilda ætti fyrir næsta kjörtímabil.“

Ég tel ekki rétt að hafa slíka setningu í nefndarálitinu sem gæti gefið tilefni til þess að hægt væri að vísa í að einhver leiðsögn væri af hálfu nefndarinnar að taka ætti stefnumarkandi ákvarðanir um laun þingmanna ári fyrir kosningar og vildi ég láta það koma fram.

Ég vil aðeins, þó að ég ætli ekki að fara í umsagnir sem fram komu um málið, vísa í það sem mér finnst máli skipta að haldið sé til haga, af því að umsagnirnar fylgja ekki með í nefndarálitinu. Til dæmis það sem fram kom hjá kjaranefnd og reyndar fleiri aðilum, eins og t.d. Kjaradómi, að þar er dregið í efa réttmæti þess að ráðið skeri sjálft úr um hverjum það ákveður laun. Eins kom það fram hjá kjaranefnd en hún segir, með leyfi forseta, í umsögn sinni:

„Í frumvarpinu er lagt til að kjararáð verði skipað fimm mönnum og að það starfi í tveimur deildum, annars vegar fullskipað og hins vegar þriggja manna undirnefnd. Ekki verður séð að þörf sé á slíkri skiptingu og kjaranefnd telur eðlilegt að sömu aðilarnir sinni öllum þeim störfum og þeim verkefnum sem ráðinu verði falin, …“

Að hluta til er hægt að taka undir þetta hvort tveggja sem þarna kemur fram og vildi ég halda því til haga í umræðunni að þessir aðilar hafi sett fram þessar ábendingar ásamt reyndar fleirum sem fram komu í umsögn umræddra aðila og annarra. Meðal annars var það gagnrýnt sem fram kom í máli formanns og framsögumanns nefndarinnar að óeðlilegt væri að vísitölubinda þessi laun með sjálfvirkum hætti og kom það m.a. fram hjá formanni Kjaradóms og er tekið tillit til þess hjá efnahags- og viðskiptanefnd.

Einnig kom fram í umsögn Alþýðusambands Íslands að það taldi eðlilegt að þær ákvarðanir sem teknar yrðu á þingi og varða bein launakjör þingmanna eins og ýmiss konar álagsgreiðslur, t.d. hjá forsætisnefnd, álagsgreiðslur nefndarformanna, og það sem telja mætti til beinna launagreiðslna ætti að vera í ákvörðunarvaldi þessa nýja kjararáðs en það sem kæmi fram í 9. gr. væri ekki nægjanlegt, en þar segir, með leyfi forseta:

„Enn fremur skal kjararáð taka tillit til kvaða sem störfunum fylgja, svo og hlunninda og réttinda sem tengjast embætti og launum, svo sem lífeyrisréttinda og ráðningarkjara.“

Auðvitað er það eðlilegt að kjararáð taki tillit til þessara launakjara sem hér er um getið í síðustu mgr. 9. gr. en við fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd vildum ganga lengra og flytja ákvörðunarvald í þeim launakjaraþáttum sem ákvarðaðir eru í þinginu og eru beinar launagreiðslur, að þær flytjist til ákvörðunar hjá kjararáði einnig. Ekki náðist samstaða um það og að því lýtur fyrirvari okkar.

Ég held ég megi segja að almenn samstaða hafi verið um það hjá þeim sem fjölluðu um málið og sendu umsagnir til þingsins að sú skipulagsbreyting sem gerð er væri verulega til bóta, þ.e. að ekki séu tvískiptar ákvarðanir fyrir þá aðila sem kjaranefnd og Kjaradómur hafa ákvarðað laun fyrir heldur falli þetta undir eina skipan sem er kjararáð og er það vissulega til bóta, virðulegi forseti.

Ég vil segja í lokin, virðulegi forseti, vegna þess að stefnt er að því að ljúka þessu þingi væntanlega á morgun eða fljótlega eftir helgi, að ég harma það ef ekki gefst tími á þinginu til að ná samstöðu um að breyta hinu svokallaða eftirlaunafrumvarpi sem mjög hefur verið gagnrýnt í samfélaginu og harma að ekki hafði náðst samstaða um það meðal flokka hér á þingi að gera nauðsynlega breytingu á því frumvarpi sem margrætt hefur verið, þ.e. að þeir sem hætta störfum sem þingmenn eða ráðherrar og taka við öðrum störfum þar sem þeir hafa full laun hafi á sama tíma full lífeyrisréttindi. Þetta er mjög óeðlilegt að slíkt skuli viðgangast og það ber auðvitað að harma að ekki náist samstaða um það á þinginu að breyta þessu.

Ég vil halda því til haga sem ítrekað hefur komið fram að málið hafi verið fast í forsætisnefnd. Það hefur verið margbent á það af hálfu forsætisnefndarmanna að svo er ekki. Málið hefur ekki verið þar til ákvörðunar heldur hefur þetta verið á borði og vettvangi þingflokksformanna og þar hefur ekki náðst samstaða. Ég hefði viljað ganga miklu lengra en mér heyrðist að margir vildu. Ég hefði viljað að við gengjum það langt að afnema þau réttindi sem þegar eru orðin virk hjá þeim aðilum sem hafa verið að þiggja þessi lífeyrisréttindi á sama tíma og þeir þiggja full laun í störfum sínum. Menn segja að það muni ganga á svig við stjórnarskrána. Mín skoðun er sú að við hefðum átt að taka þá áhættu. Hér er um svo mikið óréttlæti að ræða að hafa slíkt fyrirkomulag á í lífeyrisréttindum þingmanna og ráðherra með þessar tvöföldu greiðslur, þ.e. bæði lífeyrisréttindi og launagreiðslur á sama tíma, að ég hefði viljað sjá það hverfa. Það var skoðun flokks míns að það yrði gert með þeim hætti en um það náðist ekki samstaða og verður ekki séð að það verði gert á þeim örfáu dögum sem eru til stefnu á þessi þingi sem væntanlega lýkur í síðasta lagi einhvern tíma í næstu viku.