132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

kjararáð.

710. mál
[21:44]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Ég gerði allrækilega grein fyrir afstöðu minni til málsins við 1. umr. Ég hef áður flutt þingmál um skipan kjaramála alþingismanna. Það gekk út á að Alþingi hefði sjálft forræði á málinu, stæði og félli með ákvörðunum sínum. Ég byggi á þeirri hugsun að að baki ákvörðunum um kjaramál skuli jafnan vera ábyrgð, að það sé hægt að draga þá til ábyrgðar sem taka slíkar ákvarðanir. Svo er í kjarasamningum, þar fá fulltrúar verkalýðsfélaganna aðhald frá félögum sínum innan félaganna. Sama gildir um Samtök atvinnurekenda. Úr vöndu er að ráða þegar um er að ræða alþingismenn og ýmsa þá sem standa utan hefðbundinna kjarasamninga. En þá er hægt að hafa þann hátt á, eins og ég nefndi áðan, að Alþingi taki sjálft endanlega ábyrgð á gjörðum sínum því að þingmenn er vissulega hægt að draga til ábyrgðar í kosningum.

Þetta þingmál sem ég flutti fyrir fáeinum árum hlaut ekki brautargengi, reyndar engan stuðning á þinginu nema ef ég man rétt í orði frá þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, sem kvaðst vera sammála þeirri hugsun sem frumvarp mitt hvíldi á. Hvað um það. Um nokkurra ára skeið hefur kjörum þingmanna verið ráðið af hálfu Kjaradóms og einnig hefur verið við lýði svokölluð kjaranefnd, sem hefur haft með höndum ákvörðun um kjör ýmissa embættismanna ríkisins. Í þeim hópi hefur stöðugt verið að fjölga í seinni tíð. Er það mat margra, ekki síst verkalýðsfélaganna, að það sé ill þróun, það sé eðlilegt að hópar sem á annað borð sem geta samið um kjör sín geri það í kjarasamningum.

Við þekkjum síðan aðdragandann að því frumvarpi sem liggur nú fyrir, frumvarpi til laga um kjararáð. Urðu miklar deilur kringum áramótin um ákvörðun Kjaradóms varðandi kjör alþingismanna og ætla ég ekki að fjölyrða um þá ákvörðun hér og nú en ákveðið var að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Skipuð var nefnd með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi. Hún komst að niðurstöðu. Niðurstöðuna er að finna í þessu frumvarpi. Allir þingflokkar fengu málið til umsagnar og niðurstaðan í mínum þingflokki var sú að við skyldum styðja þetta frumvarp. Innan okkar flokks, eins og ég hygg allra þingflokka, eru deildar meiningar um hvernig haga skuli þessum málum og augljóst að leita þyrfti málamiðlunar. Sú málamiðlun liggur fyrir í þessu frumvarpi.

Sú breyting er gerð á skipan þessara mála að Alþingi kemur beinna að skipan í kjararáðið en það gerði áður í Kjaradóm og færir þannig ábyrgðina nær sér. Þetta er í átt að þeirri hugsun sem ég hef talað fyrir þótt hún gangi ekki alla leið. Því fer reyndar fjarri. Ég held að það sé til góðs að sameina hina gömlu kjaranefnd og Kjaradóm í eitt kjararáð. Einnig er að finna ákvæði sem gefa þeirri hugsun undir fótinn að fækka verði þeim sem fá kjör sín ákvörðuð með þessum hætti. Það er ekki skýrt kveðið á um að stórir hópar sem núna lúta ákvörðunum kjaranefndar skuli fara að setjast að samningaborði sjálfir en sá skilningur liggur engu að síður fyrir í þessu lagafrumvarpi.

Hæstv. forseti. Þótt ég sé ekki fyllilega sáttur við frumvarpið eða öllu heldur, svo ég gerist nákvæmari í orðavali, þó að það sé ekki alveg sniðið að hugmyndum mínum ætla ég að sætta mig við þessa niðurstöðu.

Varðandi lífeyrisréttindi þingmanna, sem hér hafa verið gerð að umfjöllunarefni, þá tel ég að það sé aðgreint og aðskilið mál og í mínum huga er ekki til nein málamiðlun í því efni. Lög um lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra ber að afnema heildstætt, nema þau algerlega úr gildi og vísa þeim hópi, þingmönnum og ráðherrum, inn í Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, LSR, A-deild þess sjóðs. Þar eru góð réttindi. Þau eru vissulega lakari en kveðið er á um í hinum makalausu lögum sem gilda nú um lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra en það er við hæfi að þessir starfsmenn ríkisins séu þar eins og allir aðrir.

Fleira ætla ég ekki að segja að svo stöddu um þetta frumvarp sem ég mun styðja við atkvæðagreiðslu.