132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

kjararáð.

710. mál
[21:51]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um það frumvarp sem við ræðum hér um launakjör þingmanna, sem er sáttagjörð úr nefnd sem allir þingflokkar skipuðu fulltrúa sína í. Ég tel að sú sáttagjörð sé viðunandi eins og hún birtist í frumvarpinu. Ég er sáttur við að ábyrgð Alþingis færist nær í ákvarðanatökunni og að við berum í raun og veru meiri ábyrgð á henni sjálfir með því að Alþingi skipi beint þrjá fulltrúa í kjararáð. Ég held að vandfundin verði önnur aðferð en sú sem hér er lögð til. Það er gott að við fórum þá leið að einfalda formið með að leggja niður annars vegar Kjaradóm og hins vegar kjaranefnd og settum málið í þann farveg sem það er í frumvarpinu. Ég tek líka undir að það sé mjög eðlilegt að skoða það hvort allir þeir hópar sem nú heyra undir kjararáð eigi heima þar í framtíðinni. Ég tel að það muni þróast á þann veg að svo verði ekki, hæstv. forseti.

Við munum styðja þetta mál í þingflokki Frjálslynda flokksins og teljum að þetta sé ágætlega ásættanlegur farvegur í þessum málum.