132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

umferðarlög.

503. mál
[22:11]
Hlusta

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller er rétt að í bígerð er að endurskoða þessi lög og í greinargerð meiri hluta samgöngunefndar kemur fram að ráðuneytið hefur áform um það og hefur þegar rætt við Félag lögreglumanna um að þeir komi þegar að því máli.

Aðeins til að skerpa á því hvað hér er að gerast þá er rétt að benda á að samkvæmt 68. gr. laganna er lögbundið nú þegar að Vegagerðin annist eftirlit með aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Jafnframt er það lögbundin heimild eftirlitsmanna Vegagerðarinnar til stöðvunar ökutækja til að skoða upplýsingar sem varðveittar eru í ökurita ökutækis, á ökuritakorti eða með öðrum hætti.

Þetta mál er til komið eins og áður hefur komið fram vegna tveggja hæstaréttardóma þar sem skoðun vegaeftirlitsmanna var dæmd ómerk vegna þess að það vantaði ákvæði í þau lög sem hér er væntanlega verið að staðfesta.

Aðeins varðandi tekjuöflun til vegagerðar en mönnum hættir mjög til að gera tvö atriði tekna og gjalda að umræðuefni. Það er annars vegar hverjar tekjurnar eru og hins vegar hvað fer í vegaframkvæmdirnar. Ég held að það sé nauðsynlegt líka að líta til fleiri átta. Hvað kostar svo vegaumferðin þjóðfélagið? Því miður vegna allt of margra slysa og afleiðinga þeirra og löggæslu sem þarf að hafa vegna umferðar og fleiri þátta sem koma þarna saman. Það eru því auðvitað miklar öfgar þegar þessar tvær tölur eru bornar saman án þess að litið sé yfir alla flóruna.

Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Möller um að samstarfið var gott í nefndinni og það var farið mjög gaumgæfilega yfir þessi mál en svo auðvitað eins og vill gerast oft í nefndum þá skerast leiðir og álit manna er sitt hvað varðandi lögin.