132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

umferðarlög.

503. mál
[22:13]
Hlusta

Frsm. minni hluta samgn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins vegna þess sem talað var um ökurita eða ökuskífuna svokölluðu. Það er hluti af þessu máli sem ég hef talað um og er sjálfsagt að samþykkja að skjóta frekari stoðum undir lögin um það þannig að dómstólar geti tekið á því máli þegar um brot á því er að ræða.

Þar með er ég ekki endilega að segja og ég ætla ekki að lengja umræðuna um það að fara að tala um hvaða klukkustundafjölda eigi að nota fyrir þá sem eru að keyra á Íslandi. Það er eins og menn hafa stundum tekið dæmi um, það er ákveðinn hámarkstími á akstri sem þarf fyrir flutningabíla og rútubíla o.s.frv. en menn hafa stundum sagt sem svo að aðrir, t.d. leigubílstjórar, megi þess vegna keyra allan sólarhringinn þannig að það er svolítið á skjön við það sem er.

Varðandi þann þátt annan sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgöngunefndar, nefndi áðan um tekjur ríkissjóðs er það þannig að við berum saman skatttekjur ríkissjóðs af bifreiðanotkun og bifreiðainnflutningi sem gera 47 milljarða á síðasta ári og tökum svo þá peninga sem renna til reksturs Vegagerðarinnar, nýbyggingar vega, eftirlits, viðhalds, þar með talin hálkuvörn, og allra þessara þátta þá er það auðvitað þannig að ríkissjóður þarf að borga einhverjum öðrum ákveðna upphæð en það hefur ekki verið tekið inn í skattlagningu að fjármagna það sem kann að gerast á þjóðvegum landsins þar sem slys eru allt of mörg.

En virðulegi forseti, eins og ég sagði áðan þá stendur eftir að ágreiningur er um þessar tvær greinar. Þar skilur á milli meiri hluta og minni hluta en aðrar greinar í nefndarálitinu eru bóta. Ég get líka sagt það að lokum að ég er sammála því að það var til bóta að færa umferðaröryggismál úr dómsmálaráðuneytinu í samgönguráðuneytið.