132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

umferðarlög.

503. mál
[22:28]
Hlusta

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason heldur því fram að það sem skrifað stendur í texta þessa lagabálks gangi í berhögg við hagsmuni borgaranna. Er það gegn hagsmunum borgaranna að umferðaröryggis sé gætt á vegum sem eru því miður ekki nema 6,5 metra breiðir? Hv. þm. Jón Bjarnason hefur oft talað um að það sé óalandi og óferjandi að sjóflutningar hafi lagst af o.s.frv. einmitt vegna þess hvernig vegirnir eru? Nú er allt í einu nauðsynlegt að auka umferðina enn frekar og hafa þetta heldur frjálsara en verið hefur.

Ég benti á það áðan að í frumvarpinu er lagt til að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði veitt aukið vald til að stöðva akstur farmflutninga- og hópbifreiða, banna frekari för þeirra og krefjast upplýsinga og gagna án aðkomu lögreglu. Hér er um að ræða ökutæki sem eru 3,5 tonn eða meira.

Við vitum það hv. þingmaður að kæruleysi þungaflutningabílstjóra hefur færst í vöxt, þeir hafa ekki gengið almennilega frá farmi. Það gerist meira að segja hér á götum höfuðborgarinnar. Það gerist inn til sveita og í afdölum þar sem menn telja sig geta ekið án þess að eiga yfir höfði sér að lögreglan sé á ferðinni.

En nú hafa þau undur og stórmerki gerst að vegagerðarmenn hafa verið sýnilegri og það er talsverður munur frá því sem áður var hve kærum og brotum af slíku tagi hefur fækkað. Ég vil í lokin vitna til ályktunar Umferðarráðs um þetta mál, með leyfi forseta:

„Stjórn Umferðarráðs álítur að með samþykkt þessa frumvarps, um breytingu á umferðarlögum, náist margt fram sem stuðlar að auknu umferðaröryggi. … Þá er það skoðun stjórnarinnar að skilvirkt starf sérstakra eftirlitsmanna Vegagerðarinnar auki löggæslu á vegum, sem að mati stjórnarinnar er allt of lítið hér á landi. Til framtíðar litið má ætla að náið samstarf lögreglu og eftirlitsmanna Vegagerðarinnar aukist á nýjan leik, vegfarendum ótvírætt til aukins umferðaröryggis.“