132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

hlutafélög.

404. mál
[23:01]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hv. þm. Jónína Bjartmarz skuli taka undir þau sjónarmið sem minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar setur fram í nefndaráliti sínu um þennan þátt málsins, þ.e. að það sé ekki nógu skýrt kveðið á um það í frumvarpinu eins og það kemur frá viðskiptaráðherra hvernig tryggja eigi sem jafnastan hlut kvenna og karla í stjórnum opinberra hlutafélaga.

Ég vil minna á að eins og jafnréttislögin eru þá er það í sjálfu sér skylda fyrirtækja að grípa til aðgerða til að jafna hlut kvenna og karla. Menn gleyma oft þeirri frumkvæðisskyldu sem fyrirtækin hafa í þá veru að leggja sitt af mörkum til að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og jafna hlut kvenna og karla til launa, valda og áhrifa í fyrirtækjum. Það er mikilvægt að þetta sé haft í huga og að a.m.k. ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og sýni hvað það getur gert til þess að gera hlutinn sem jafnastan.

Eins og ég sagði var samþykkt á fjölmennum fundi kvenna á Bifröst í dag að skora á Alþingi að beita sér fyrir löggjöf þess efnis að hlutur kvenna eða annars hvors kynsins í stjórnum fyrirtækja sé ekki undir 40%. Ástæðan fyrir því að þetta var samþykkt í dag er sú að fyrir allnokkru, kannski um ári síðan, sagðist viðskiptaráðherra ætla að beita sér fyrir því að hlutur kvenna mundi aukast í stjórnum fyrirtækja á markaði og skoraði á fyrirtækin að grípa til aðgerða til að auka hlut kvenna.

Síðan þetta var hefur hlutur kvenna minnkað í stærstu fyrirtækjunum. Ég held að hann hafi verið 6% en sé kominn niður í 4%. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að hlutur kvenna skuli ekki vera meiri en þetta. Þegar fólk talar gegn því að þetta sé bundið í lög á þeirri forsendu að þar með sé annaðhvort verið að úthluta konum stjórnarsætum á grundvelli kynferðis eða á þeirri forsendu að þetta sé íþyngjandi fyrir fyrirtækin, þá mótmæli ég því harðlega. Það getur ekki verið íþyngjandi fyrir fyrirtæki að fá hæfar konur í stjórnir fyrirtækjanna.

Það er beinlínis rangt að tala um það þegar hæfar konur setjast í stjórnir fyrirtækja, þó að það sé á grundvelli lagasetningar, að þær geri það bara vegna þess að þær séu konur og séu á einhverjum kvótum. Það má líta svo á að þau 96% karla sem sitja í stjórnum þessara stærstu fyrirtækja sitji þar í raun á grundvelli karlakvóta sem er í gildi þótt hann sé ekki lögfestur. Hann er menningarbundinn, hann er bundinn hefðarrétti og hann er bundinn hugarfari þó að hann sé ekki lögfestur. Því má halda fram með rökum að þeir sitji í rauninni á grundvelli kynjakvóta í stjórnunum ef menn vilja yfirleitt tala um þessi mál undir þeim formerkjum.

Ég tel, virðulegur forseti, að það væri skref í rétta átt ef Alþingi samþykkti í dag eða á morgun að láta þessa 40% reglu að minnsta kosti gilda um sín fyrirtæki, sín opinberu hlutafélög þar sem það getur ráðið för. Ég held að hin opinberu hlutafélög mundu ekki skaðast af því, það væri ekki íþyngjandi fyrir þau. Það væri hvorki konum né körlum til nokkurrar vansæmdar þótt slíkt væri fest í lög.

Þess vegna beini ég því til hv. þm. Jónínu Bjartmarz að styðja einfaldlega þessa breytingartillögu frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar í stað þess að flytja um þetta einhverja sérstaka breytingartillögu, en í 2. tölul. breytingartillögu frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar segir svo, með leyfi forseta:

„Í opinberum hlutafélögum þar sem fulltrúar íslenska ríkisins eða sveitarfélaga, eins eða fleiri, skipa meiri hluta stjórnarmanna skal hlutfall kynja í stjórn vera sem jafnast og þar sem því verður við komið skal hvort kyn um sig ekki vera undir 40% stjórnarmanna.“

Ég skora, virðulegur forseti, á konur hér í þinginu að styðja þessa breytingartillögu og karla raunar líka, vegna þess að þetta er auðvitað mál sem þá varðar ekki síður en konur. Þeir sem eru framsæknir og framfarasinnaðir í þeirra hópi eiga að sjálfsögðu að styðja slíkar breytingartillögur.