132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

hlutafélög.

404. mál
[23:08]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla enn og aftur að skora á hv. þm. Jónínu Bjartmarz að styðja þessa breytingartillögu. Hún þarf auðvitað ekkert að styðja aðrar breytingartillögur og getur eftir sem áður stutt frumvarpið eins og það kemur fyrir. En hér liggur fyrir breytingartillaga og ég skora á þingmanninn að samþykkja hana. Talandi um kvóta þá eru auðvitað margvíslegir kvótar sem varða mannfólkið í gildi. Það má auðvitað alveg tala um að það sé ákveðinn kvóti í gildi varðandi fæðingarorlofið. Í fæðingarorlofslögunum er sagt hvernig það orlof skuli skiptast milli kvenna og karla, hver hlutur karla í því er og hver hlutur kvenna. Kvóti er því víða í löggjöf okkar af því að við viljum tryggja að kynin skipti með sér gæðum með einhverjum tilteknum hætti og að annað kynið fari ekki halloka gagnvart hinu.

Ég tel að það sé kominn tími til að við skoðum þetta alvarlega með fyrirtækin og stjórnir fyrirtækja og prófum þetta a.m.k. í hinum opinberu hlutafélögum þar sem við höfum tök á málinu.