132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

eldi vatnafiska.

595. mál
[23:10]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá landbúnaðarnefnd um frumvarp til laga um eldi vatnafiska.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta sem taldir eru upp í nefndarálitinu og eins hafa nefndinni borist um umsagnir frá fjölmörgum aðilum sem einnig eru tilgreindir þar.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérlög um eldi vatnafiska en ákvæði um slíkt eru nú í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi til laga um varnir gegn fisksjúkdómum, frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, frumvarpi til laga um fiskrækt og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði.

Lögð er til breyting á 27. tölul. 3. gr. á þá leið að villtur fiskstofn verði skilgreindur sem fiskstofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum. Framangreind breyting er til samræmis við þá skilgreiningu sem kemur fram í frumvarpinu um lax- og silungsveiði.

Fyrr á þessu löggjafarþingi voru lögfest ný lög um faggildingu o.fl., nr. 24/2006, og þarf því að leiðrétta tilvísun í 14. gr. frumvarpsins en þar er vísað til eldri laga þar sem ákvæði um faggildingu voru í lögum um vog, mál og faggildingu.

Í nefndinni var rætt um eldisbúnað skv. 21. gr. og komu fram ábendingar um að hafa ætti fortakslaust bann á innflutningi á notuðum eldisbúnaði. Nefndin telur afar mikilvægt að skýrt sé kveðið á um að innflutningur sé bannaður en leggur þó til að gerð verði breyting á undantekningarákvæðinu á þá vegu að eingöngu verði heimilt að flytja inn vísindatæki og tæknibúnað með ákveðnum frekari skilyrðum um sótthreinsun o.fl. Leyfi um innflutning skuli beina til Landbúnaðarstofnunar sem getur heimilað slíkan innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar.

Þá eru lagðar til breytingar á 24. gr frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á gildistöku frumvarpsins. Í öðru lagi er lögð til breyting á lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, varðandi fiskeldisnefnd en skv. 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að fulltrúi frá Landssambandi fiskeldisstöðva fái sæti í nefndinni. Þá er lagt til að felld verði brott tilvísun í gildandi lax- og silungsveiðilög.

Að lokum er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða þannig að einum fulltrúa frá Félagi eigenda sjávarjarða verði bætt við samráðsnefndina og með því komi fleiri hagsmunaaðilar að henni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Gunnar Örlygsson, Guðmundur Hallvarðsson, Jón Bjarnason, Guðjón Ólafur Jónsson og Valdimar L. Friðriksson.