132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

lax- og silungsveiði.

607. mál
[23:37]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil vel áhyggjur hv. þingmanns af atkvæðisréttinum. Ef hann hefði setið nefndarfundina hefði hann komist að raun um að þetta var rætt fram og til baka. Það var líka gert í þeirri nefnd sem samdi frumvarpið og varð samkomulag um að hafa þetta svona, þ.e. að hver jörð hefur eitt atkvæði. En hvert félag getur ákveðið að farið verði eftir arðskrá og arðskráin notuð sem atkvæði. Hvert félag getur gert það og í 40 gr. frumvarpsins hefur verið komið til móts við þá sem hafa viljað að atkvæðisrétturinn fari eftir eignarhluta:

„Ef lagt er fyrir fund í veiðifélagi að ráðast vegna starfsemi félagsins í framkvæmdir, sem hafa fjárútlát í för með sér er nema a.m.k. 25% af tekjum félags af veiði á því starfsári, getur hver félagsmaður krafist þess að ákvörðun ráðist með greiðslu atkvæða er hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins. Gildir þá hver eining í arðskrá sem eitt atkvæði. Í samþykktum veiðifélags er heimilt að ákveða að regla þessi um atkvæðagreiðslur gildi í fleiri tilgreindum tilvikum sem varða ákvarðanatöku í veiðifélagi.“

Þetta varð niðurstaða nefndarinnar sem samdi frumvarpið. Ég hef haft áhuga á því sjálf að breyta þessu. Það gekk ekki og við náðum niðurstöðu í nefndinni. Nefndin varð sammála um að ganga frá nefndarálitinu eins og það lítur út núna en margir telja að nauðsynlegt sé að hafa þetta svona til að tryggja rétt minni hlutans.