132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[00:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Frumvarp til laga um Veiðimálastofnun er hér komið til 2. umr. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir, formaður landbúnaðarnefndar, hefur gert grein fyrir í nefndaráliti landbúnaðarnefndar við frumvarpið. Ég styð nefndarálitið. Ég hafði reyndar smáfyrirvara við það sem lýtur fyrst og fremst að stjórnskipulagi Veiðimálastofnunar. Yfir henni er leiðbeinandi stjórn en því á að breyta yfir í ráðgjafarnefnd til ráðgjafar við verkefnaval og áherslur stofnunarinnar. Ég geri í sjálfu sér engan grundvallarágreining um þetta en í umsögnum og viðtölum við bæði stjórn og framkvæmdastjóra Veiðimálastofnunar voru allir mjög sáttir við þá skipan sem var og því er ekki ástæða til að breyta henni af þeim sökum. Ef eitthvað gengur vel eins og það er þá er ekki ástæða til að breyta því og ég geri athugasemdir við það.

Breytingarnar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu eru að mínu viti til bóta. Ég vil leggja áherslu á hversu mikilvægt er að vera með opinbera stofnun sem hefur það hlutverk að safna grunngögnum varðandi ferskvatnsfiska og lífríki þeirra og lífríki í vötnum og geti fylgt eftir ferskvatnsfiskum sem lifa að hluta í sjó. Ég tel það mikilvægt og þessi stofnun hefur staðið sig vel hvað þetta varðar. Málið snýst um hluta af auðlindum okkar og lífríki. Þess vegna er mikilvægt að hafa opinbera stofnun sem fylgir eftir rannsóknum og eftirliti á grunnþáttum þess málaflokks. Það vil ég hér árétta.

Okkur ber skylda til að fylgjast með og varðveita líffræðilegan fjölbreytileika, sem er ekki síst mikilvægur í ám og vötnum. En með aðgerðum okkar, virkjunum eða öðrum inngripum, er líffræðilegan fjölbreytileika í vötnum og vatnasvæðum hérlendis ógnað. Þess vegna skiptir miklu máli að hafa opinbera stofnun sem fylgist vel með, er umsagnaraðili, rannsakar og gætir þessarar auðlindar og veitir ráðgjöf.

Veiðimálastofnun hefur starfað náið með hagsmunaaðilum í greinum sem lúta að veiði og nýtingu og meðferð á auðlindinni í ám og vötnum, rekið deildir í þremur landshlutum og þannig byggt upp mjög öflugt samstarfsnet. Ég vil í lokin árétta mikilvægi þessarar stofnunar, þeirra verkefna sem hún er ábyrg fyrir. Ég styð þetta frumvarp.