132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

ferðasjóður íþróttafélaga.

789. mál
[01:49]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir þá hugsun sem kemur fram í andsvari hv. þingmanns um gildi menningar gagnvart ekki bara ungu fólki heldur fólki almennt. Ég held að við eigum ekki að stilla upp íþróttum annars vegar og menningu hins vegar sem einhverjum andstæðum.

Sú tillaga sem hér er flutt fjallar einungis um íþróttir og ég held að við eigum að líta á hana einungis út frá sjónarmiði íþrótta, enda er tillagan flutt þannig upphaflega af þingmönnum og síðan af menntamálanefnd allri. Það er síðan annað mál sem er alveg sjálfstætt mál og alveg þess virði að ræða og það er sambærileg hugsun hvað varðar menninguna. Það er rétt hjá hv. þingmanni að á menningarsviðinu eiga sér stað ferðalög og ungmenni og fólk þarf að ferðast landshorna á milli til þess að sinna því ómetanlega menningarstarfi, hvort sem það er dans, sem reyndar er stundum flokkað sem íþrótt, leiklist, kór, myndlist og þar fram eftir götunum. Hvort tveggja íþróttum og menningu að öðru leyti. Íþróttir eru að vísu hluti af menningu í mínum huga en menning í þeirri merkingu sem hv. þingmaður skilgreindi hér er að sjálfsögðu hluti af innihaldsríku lífi í hverju bæjarfélagi. En þessi þingsályktunartillaga er flutt til þess að styðja við bakið á íþróttum og einungis íþróttum. Hitt er sjálfstætt mál sem við getum tekið til umræðu síðar.