132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[02:06]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að mótmæla þessum orðum og vekja athygli á að við erum með endurnýjanlega orku á Íslandi. Nú geta menn haft þá skoðun að við séum að fórna of miklu. Það er alveg viðhorf. Hvort sem það er til að byggja vatnsaflsorkuver, nota jarðhitann til að knýja áfram orkuver eða til að hita heimilin. Það er alveg viðhorf.

Það er alveg fráleitt að halda því fram að hér sé ekki um endurnýjanlega orku að ræða. Það getur enginn haldið því fram. Það er algjörlega fráleitt að halda því fram að við höfum fengið einhverja undanþágu á öðrum forsendum en umhverfisvænum forsendum. Ég hvet þá aðila sem vilja ræða þessi mál að kynna sér þau skilyrði sem eru í ákvæðinu sem kallað er íslenska ákvæðið. Því öll þau skilyrði ganga út á að við nýtum hér umhverfisvæna orku, endurnýjanlega orku.

Það er bara þannig ef menn ætla að tala um loftslagsmál í einhverri alvöru þá hljóta menn að líta til þess og bera saman þá orku sem við notum, hvaða mengun hún hefur í för með sér og bera hana saman við aðra valkosti. Við hljótum að gera þá kröfu til þeirra aðila sem tala um þessi mál að þeir geri það. Það liggur hreint og klárt fyrir að sú leið sem við förum mengar mun minna og er ekki með sama útblástur og t.d. þær verksmiðjur sem eru reknar áfram með kolum, gasi og olíu sem við erum að bera okkur saman við. Alveg hreint og klárt.

Síðan geta menn haft þá skoðun að við eigum að fara varlegar og að við eigum ekki að fórna, því svo sannarlega fórnum við, hvort sem við setjum hér upp orkuver, með heitu vatni eða vatnsafli. Menn geta haft þá skoðun að við eigum ekki að gera það. En menn geta ekki haft þá skoðun og fært fyrir því rök að (Forseti hringir.) við séum ekki að gera hlutina með umhverfisvænum hætti.