132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

náttúruvernd.

180. mál
[03:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kem hér eingöngu til að fagna því að þetta mál skuli nú komið á leiðarenda. Það er búið að bíða eftir því árum saman að þetta mál verði afgreitt frá Alþingi. Það er sannarlega orðið löngu tímabært að tekið sé á málum er varða eldri námur. Það er búið að takast á um málefni er tengjast eldri námum árum saman án þess að stjórnvöld hafi brugðist við. Þau hafa jafnvel lagt fram frumvörp af þessu tagi. Sams konar frumvarp var lagt fram á síðasta þingi. Í tvö ár er þetta frumvarp búið að vera að veltast í umhverfisnefndinni. Stjórnarandstaðan hefur mælt með því og ýtt á að málið verði afgreitt frá nefndinni en menn hafa séð ástæðu til að fjalla um þetta fram og til baka án þess að koma því frá nefndinni fyrr en núna. Ég lít því svo á að hérna sé fagnaðarefni á ferðinni að nú sé þetta loksins komið í höfn og að hilla skuli undir að sett verði lög um eldri námur og tryggt að framkvæmdaleyfi fyrir allri efnistöku á svæðum þar sem efnistaka var hafin fyrir 1. júlí 1999 verði í samræmi við náttúruverndarlög.